Hamar/Selfoss/Ægir - Álftanes: 3-1

Sæl, öllsömul!

Ég ætla þá að fara nokkrum orðum um leik Hamars/Selfoss/Ægis og Álftaness sem fram fór á laugardag. Umræddur leikur var í Faxaflóamóti og fór fram á Selfossi við ágætar aðstæður. 
 
Skemmst er frá að segja að um hörkuleik var að ræða þar sem heimamenn voru mjög öflugir en flestallir drengir í þeirra liði voru á eldra ári. Okkar drengir gáfu þeim lítið eftir en bæði lið voru vel spilandi og gátu haldið knetti vel innan liðs. Lítið var um opin marktækifæri í fyrri hálfleik og skiptust liðin þá á að sækja. Það voru þó heimamenn sem náðu að skora tvö mörk í fyrri hálfleik en bæði mörkin komu eftir skyndisókn þar sem heimamenn náðu að nýta líkamsburði sína til hins ýtrasta. Okkar drengir fengu tvö mjög góð marktækifæri í fyrri hálfleik sem ekki nýttust og því stóð 2-0 í leikhléi, Hamri/Selfossi/Ægi í vil.

Í síðari hálfleik fóru okkar drengir framar á völlinn og voru framan af hálfleik sprækara liðið. Við þetta opnaðist leikurinn. Þegar leið á hálfleikinn pressuðu heimamenn allmikið og uppskáru eitt mark. Þegar skammt lifði eftir af leik náði Björn Vestmar að minnka muninn með góðu marki eftir frábæra skyndisókn. Þar við sat og urðu lyktir leiks 3-1, Hamri/Selfossi/Ægi í vil. Úrslit sem verða að teljast nokkuð eðlileg og sanngjörn.  

Heilt yfir er ég afar sáttur við frammistöðu drengjanna sem gáfu allt í þetta og léku vel, ekki síst varnarlega. Mótherjinn var hins vegar sterkur og vel spilandi. Gott flæði var á knettinum en vegna þess hve mótherjinn var líkamlega sterkur þá náðist kannski ekki sá taktur í leik okkar drengja eins og oft áður. Var það nokkurn veginn vitað fyrirfram. Það sem ég var ánægðastur með var að drengir gáfust ekki upp, héldu knetti nokkuð vel og vörðust vel í föstum leikatriðum. Hafa ber í huga að sl. sumar lentu okkar drengir í tveimur svipuðum leikjum þar sem mótherjinn var mjög líkamlega sterkur. Báðir þeir leikir töpuðust stórt þar sem mörkum rigndi inn úr föstum leikatriðum.    
Birgir Jónasson þjálfari.  

Leikur í Faxaflóamóti - tilhögun

Sæl, öllsömul!

Á morgun, laugardag, verður leikið í Faxaflóamóti þegar att verður kappi við sameiginlegt lið Hamars/Selfoss/Ægis. Leikur þessi hefst kl. 14 (ekki kl. 12) og verður leikið á gervigrasvellinum Selfossi.

Mæting er við íþróttahúsið á Álftanesi kl. 12 en lagt verður af stað í framhaldi með einkabifreiðum.

Allir iðkendur flokksins eru boðaðir og eru þeir foreldrar/forráðamenn sem hyggjast fara vinsamlegast beðnir um að staðfesta það hér inni á síðunni eða hafa samband við þjálfara. Greiða þarf 500 kr. eldsneytisgjald til þeirra sem leggja til bifreiðar.

Iðkendur eru hvattir til þess að haga undirbúningi sínum af fagmennsku, hafa allan tiltækan búnað meðferðis og klæðast helst fatnaði merktum félagi.   

Öll fyrirsjáanleg forföll ber að tilkynna, það auðveldar skipulagningu. 

Birgir Jónasson þjálfari. 

Breyttur æfingatími á morgun, föstudag

Sæl, öllsömul!

Á morgun, föstudag, verður æfing frá kl. 17:30 til 19. Hún verður með nokkuð óhefðbundnu sniði þar sem ráðgert er að allir iðkendur flokksins muni hittast með þjálfurum í félagsaðstöðunni og horfa saman á upptöku frá kappleik.

Á laugardag, kl. 14, verður svo leikið í Faxaflóamóti þegar att verður kappi við sameiginlegt lið Hamars/Selfoss/Ægis. Leikið verður á Selfossi. Nánari tilhögun þess verður kunngerð eigi síðar en á morgun, föstudag.

Birgir  Jónasson þjálfari. 

Haukar - Álftanes: 2-1

Sæl, öllsömul!

Ég ætla þá að fara örfáum orðum um æfingaleik Hauka og Álftaness sem fór við prýðilegar aðstæður að Ásvöllum í Hafnarfirði á sunnudag.

Um skemmtilegan leik var að ræða sem var að mestu í jafnvægi í byrjun leiks þar sem liðin skiptust á að sækja. Svolítið gegn gangi leiksins komu tvö Haukamörk með skömmu millibili um miðjan hálfleik en mörkin voru bæði í ódýrari kantinum. Þegar leið á fyrri hálfleik voru okkar drengir mun sterkari og sóttu miklu mun meira og tóku leikinn eiginlega yfir. Inn vildi knötturinn hins vegar ekki. Stóð 2-0 í leikhléi þar sem, að mér fannst, Álftanes var mun betra liðið.

Í síðari hálfleik sóttu okkar drengir án afláts en inn vildi knötturinn ekki fyrr en fimm mínútur lifðu eftir af leik. Þar var Alex Þór á ferð með gott mark eftir undirbúning frá Atla og Elíasi. Þar við sat og fleiri urðu mörk leiksins ekki. Lyktir leiks urðu því 2-1, Haukum í vil, sem að mínu mati er býsna rýr uppskera. 

Heilt yfir fannst mér spilamennskan afar góð, gott flæði var á knettinum og gott tempó. Frábær tilþrif sáust inn á milli þrátt fyrir hvert úrvalsgóða marktækifærið hefði ekki nýst. Svona er þetta stundum! Það sem ég var ánægðastur með var að Álftanes hélt knettinum vel innan liðs og fékk ekki á sig mark úr föstu leikatriði, nema úr vítaspyrnu. Mark Álftaness kom hins vegar eftir fast leikatriði en þetta höfum við verið að vinna skipulega í. Það má því segja að upplegg leiksins hafi gengið upp, ef svo má að orði komast.

Birgir Jónasson þjálfari.