Hamar/Selfoss/Ægir - Álftanes: 3-1

Sæl, öllsömul!

Ég ætla þá að fara nokkrum orðum um leik Hamars/Selfoss/Ægis og Álftaness sem fram fór á laugardag. Umræddur leikur var í Faxaflóamóti og fór fram á Selfossi við ágætar aðstæður. 
 
Skemmst er frá að segja að um hörkuleik var að ræða þar sem heimamenn voru mjög öflugir en flestallir drengir í þeirra liði voru á eldra ári. Okkar drengir gáfu þeim lítið eftir en bæði lið voru vel spilandi og gátu haldið knetti vel innan liðs. Lítið var um opin marktækifæri í fyrri hálfleik og skiptust liðin þá á að sækja. Það voru þó heimamenn sem náðu að skora tvö mörk í fyrri hálfleik en bæði mörkin komu eftir skyndisókn þar sem heimamenn náðu að nýta líkamsburði sína til hins ýtrasta. Okkar drengir fengu tvö mjög góð marktækifæri í fyrri hálfleik sem ekki nýttust og því stóð 2-0 í leikhléi, Hamri/Selfossi/Ægi í vil.

Í síðari hálfleik fóru okkar drengir framar á völlinn og voru framan af hálfleik sprækara liðið. Við þetta opnaðist leikurinn. Þegar leið á hálfleikinn pressuðu heimamenn allmikið og uppskáru eitt mark. Þegar skammt lifði eftir af leik náði Björn Vestmar að minnka muninn með góðu marki eftir frábæra skyndisókn. Þar við sat og urðu lyktir leiks 3-1, Hamri/Selfossi/Ægi í vil. Úrslit sem verða að teljast nokkuð eðlileg og sanngjörn.  

Heilt yfir er ég afar sáttur við frammistöðu drengjanna sem gáfu allt í þetta og léku vel, ekki síst varnarlega. Mótherjinn var hins vegar sterkur og vel spilandi. Gott flæði var á knettinum en vegna þess hve mótherjinn var líkamlega sterkur þá náðist kannski ekki sá taktur í leik okkar drengja eins og oft áður. Var það nokkurn veginn vitað fyrirfram. Það sem ég var ánægðastur með var að drengir gáfust ekki upp, héldu knetti nokkuð vel og vörðust vel í föstum leikatriðum. Hafa ber í huga að sl. sumar lentu okkar drengir í tveimur svipuðum leikjum þar sem mótherjinn var mjög líkamlega sterkur. Báðir þeir leikir töpuðust stórt þar sem mörkum rigndi inn úr föstum leikatriðum.    
Birgir Jónasson þjálfari.