Álftanes - Grindavík: 9-0

Sæl, öllsömul!

Ég ætla þá að fara nokkrum orðum um leik Álftaness og Grindarvíkur sem fram fór fyrr í dag, laugardag, á æfingavelli Stjörnunnar í Garðabæ við prýðilegar aðstæður. Leikurinn var í Faxaflóamóti.

Um stóran dag var að ræða fyrir Ungmennafélag Álftaness, drengina og okkur þjálfara (og án efa einnig alla þá sem að starfinu koma, ekki síst foreldra/forráðamenn) þar sem umræddur leikur var fyrsti leikur 3. flokks drengja Álftaness í rúm fjögur ár.

Allt frá fyrstu mínútu voru drengirnir staðráðnir í að leggja sig alla fram og það sást svo sannarlega. Skemmst er frá að segja að hið öfluga lið Grindavíkur, sem oft hefur reynst okkur erfiður mótherji, átti enga möguleika geng ákveðnum, kvikum og vel leikandi Álftnesingum. Þess ber að geta að nokkur forföll voru í liði Grindavíkur en ekkert skal þó tekið af okkar drengjum.

Um hálfgerða einstefnu var að ræða þar sem okkar drengir héldu knettinum vel innan liðsins, voru sterkir varnarlega og beittir í sóknarleik. Mörk okkar drengja urðu fjögur talsins í fyrri hálfleik án þess að Grindavík næði að skora.

Í síðari hálfleik var sama upp á teningnum og þá urðu mörk okkar drengja fimm talsins, án þess að Grindavík næði að skora. Lyktir leiks urðu því 9-0, Álftanesi í vil, sem eru hreint út sagt ótrúleg úrslit og fyrirfram eitthvað sem maður átti ekki von á.

Mörk Álftness gerðu: Gylfi Karl 4, Atli Dagur 2, Alex Þór 1, Björn Vestmar 1 og Tristan 1. Nokkur markanna voru af dýrari gerðinni og hreint út sagt frábær. Það má því með sanni segja að fólk hafi, einu sinni sem oftar, fengið nóg fyrir peninginn, ef svo má að orði komast.

Heilt yfir er ég afar ánægður með frammistöðuna sem var framúrskarandi. Drengir voru duglegir, ákveðnir og baráttuglaðir og stoltir að leika fyrir Álftanes. Þá léku þeir góða knattspyrnu þar sem knötturinn gekk drengja á milli og oft og tíðum án þess að Grindvíkingar fengju rönd við reist. Sóknarnýting var mjög góð, þau auðvitað allnokkur marktækifæri hafi farið í súginn.

Í desember er svo ráðgert að leika aftur gegn Grindavík og þá æfingaleiki í Hrópinu (yfirbyggt knattspyrnuhús í Grindavík), þar sem teflt verður fram tveimur liðum og leikið átta gegn átta. Næsta verkefni er hins vegar leikur í Faxaflóamóti gegn sameiginlegu liði Hamars/Selfoss/Ægis sem fram fer laugardaginn 9. nóvember nk. Það verður geysilega erfitt og krefjandi verkefni enda um sterkan mótherja að ræða. Leikið verður á útivelli.

Birgir Jónasson þjálfari.