Álftanes - Leiknir R., stutt umfjöllun um leik í Íslandsmóti

Sæl, öllsömul

Ætla að fara nokkrum orðum um leikinn við Leikni R. í gær.

Nokkuð erfiðar aðstæður vegna vinds og ofankomu. Þekkjum það vel!

Lékum með sjö í liði (í stað átta) og á lítil mörk. Það síðarnefnda er aðeins öðruvísi og því var ekki um sama markaregnið að ræða og í Faxaflóamóti.

Mér fannst vera nokkurt jafnræði með liðunum úti á vellinum þrátt fyrir að við höfum aðallega séð um að skora mörkin. Settum þrjú í fyrri hálfleik og tvö í hinum síðari (Ívar 3 og Valur 2) og fengum á okkur eitt. Um opinn leik var að ræða. 

Mér fannst nokkuð gott flæði á knettinum, náðum ágætu uppspili, og sköpuðum okkur full af góðum marktækifærum. Hefði þó mátt vera fleiri möguleikar fyrir manninn með knöttinn í uppspili, þá einkum inni á miðju. Þá fannst mér nokkuð áberandi hvað við notuðum markvörðinn lítið, t.d. þegar við vorum að vinna knöttinn aftarlega á vellinum. Vorum alltof oft að koma okkur í vandræði með pressu í bakið með því að reyna snúa í stað þess að senda á markvörð, draga sig út og leysa þannig úr pressunni, þ.e. með því láta knöttinn vinna fyrir sig í stað þess að reyna hnoðast með knöttinn í gegnum manninn. Það er það sem er kennt og lagt upp með (að láta knöttinn vinna fyrir sig)! Þá fannst mér nokkrum sinnum vera furðubragur á innköstum okkar aftarlega á vellinum, þ.e. enginn leikmaður tók dýpt og þannig vorum við í raun galopnir. Kom þó ekki að sök. Þurfum að fara yfir þessi atriði og bæta fyrir næsta leik.

Heilt yfir nokkuð góður leikur þrátt fyrir að úrslitin, 5-1, hafi e.t.v. verið fullstór miðað við gang leiksins. Þurfum einnig að endurskoða það að leika 3-3 varnarlega, mögulega hentar það okkur ekki. Alltof stór svæði opnuðust inni á miðsvæðinu varnarlínur voru ekki samstíga, t.d. með því að mynda 3-2-1 (jólatré).

Birgir Jónasson þjálfari.