Álftanes - Njarðvík, stutt umfjöllun um leik í Íslandsmóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara nokkrum orðum um leikinn fyrr í dag gegn Njarðvík.

Byrjuðum leikinn vel og náðum forystu sem við héldum allan leikinn. Mikið var um opin færi þar sem sótt var á báða bóga. Vorum hættulegra liðið fram á við en mér fannst Njarðvík sterkara en við í návígjum og stöðunni maður gegn manni. Enn og aftur vorum við svolítið ragir við mótherjann sem var vissulega stæðilegri en við (í liði Njarðvíkur voru nokkrir á eldra ári).

Góðir spilakaflar og fjölbreyttur sóknarleikur (góð færanýting) skópu góðan 8-5 sigur. Mörk okkar gerðu Valur 3, Ívar 2, Gunnar 1 og Kristján 1.

Heilt yfir er ég nokkuð sáttur við frammistöðuna. Spilakaflar voru góðir og uppspil þokkalegt þrátt fyrir að möguleikar á að senda knöttinn hafi oft og tíðum verið of fáir. Nokkurn hreyfanleika skorti því hjá leikmönnum án knattar. Vorum einnig að svekkja okkur á utanaðkomandi þáttum sem við stjórnum ekki, þ.e. dómgæslu. Slíkt er aldrei vænlegt til árangurs og gengur ekki.

Getum enn bætt leik okkar og þurfum að halda áfram á sömu braut en með aðeins jákvæðara hugarfari. Minni á að í síðustu viku (í einu óveðursskotinu) var ég einmitt með erindi við ykkur um jákvætt hugarfar. Þurfum að taka slíkan fróðleik og færa hann inn í leik okkar.

Birgir Jónasson þjálfari.