Álftanes - Selfoss/Hamar/Ægir, stutt umfjöllun

Sæl, öllsömul.

Stuttur pistill frá okkur þjálfurum um leikinn við Selfoss/Hamar/Ægi fyrr í dag.

Leikurinn var lagður upp með hápressu í huga, þ.e. að fara framar á völlinn en oft áður, verjast á vallarhelmingi mótherjans og setja mikla pressu á leikmann með knöttinn og vinna hann eins fljótt og unnt var. Auk þess að nota fáar snertingar, nota breidd vallarins og sækja a.m.k. á einum bakverði. Þá var leikið með tvo djúpa miðvallarleikmenn.

Allt gekk þetta upp þar sem okkar stúlkur sýndu allar sínar bestu hliðar. Í raun var um ójafnan leik að ræða, mun ójafnari en búast mátti við, sé tekið mið af úrslitum liðanna í riðlinum fram til þessa. Urmull marktækifæra skapaðist og gnótt marka leit dagsins ljós en mörkin urðu 12 talsins, án þess að Selfoss/Hamar/Ægir næði að setja mark. Að sjálfsögðu hefði verið skemmtilegra að fá öflugri mótspyrnu en svona er þetta stundum. Mörk Álftaness gerðu: Emilía 5, Vaka 2, Valgerður 2, Sara 1 og Silja 1.

Heilt yfir erum við þjálfarar ánægðir með frammistöðuna. Góðir spilakaflar sáust og samvinna tveggja til þriggja var góð, varnarleikurinn var góður og náðum við að setja góða pressu á mótherjann þegar hann hafði knöttinn (sem var ekki oft í leiknum). Síðast en ekki síst, allir fengu að spreyta sig.

Minnum svo á æfinguna á morgun, kl. 16. Hún verður ca klukkustund. 

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.

Stjarnan - Álftanes, stutt umfjöllun um leik í Faxaflóamóti

Sæl, öllsömul.

Ætlum að fara nokkrum orðum um leikinn á laugardag gegn Stjörnunni. Um hörkuleik var að ræða sem háður var við nokkuð erfiðar aðstæður, bæði vegna kulda og roks. Íslands í desember og því breytum við ekki.

Við náðum að setja fyrsta mark leiksins sem var kannski svolítið gegn gangi leiks. Þar var Mist á ferð en markið kom eftir svonefndan „gamm“, þ.e. Emilía skaut á mark, markvörður Stjörnunnar varði og Mist fylgi á eftir og skoraði. Það skemmtilega er að þetta æfum við skipulega. Gaman þegar hlutirnir af æfingasvæðinu ganga upp.
Eftir það var svolítið á brattann að sækja, Stjarnan sótti meira en við vorum hættuleg í okkar skyndisóknum. Stjarnan náði að setja tvö í fyrri hálfleik og stóð 2-1 í leikhléi.

Í síðari hálfleik var jafnræði með liðum sem skiptust á að sækja. Bæði lið fengu prýðileg marktækifæri en Stjarnan nýtti sín betur og náði að setja tvö mörk í lokin. Lyktir urðu því 4-1, Stjörnunni í vil. Að mati okkar þjálfara var það fullstórt.

Heilt yfir erum við þjálfarar ánægðir með frammistöðuna og þetta er allt á réttri leið. Það var hugsun á bak við það sem vorum að gera og við reyndum nánast ávallt að spila knettinum á samherja. Það sem við þurfum að vinna í og bæta er að reyna halda knetti aðeins betur inni á miðjunni og vera hugrakkari að halda honum. Þá fannst okkur smá glufur myndast milli miðvarða og bakvarða. Það þurfum við að þétta.

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.

Leikur í Faxaflóamóti 16. des., tilhögun

Sæl, öllsömul.

Á laugardag, 16. des., leikum við kappleik í Faxaflóamóti. Mótherjar eru Stjarnan og hefjast leikar kl. 11. Leikið verður á Stjörnuvelli.

Allar tiltækar stúlkur flokksins eru boðaðar. Mæting er á Stjörnuvöll kl. 10:15, en þar fáum við klefa. Mælst er til að stúlkur mæti fullbúnar til leiks.

Birgir Jónasson þjálfari.

Engin æfing í dag

Sæl öll,

Það verður ekki æfing í dag vegna uppskeruhátíðar knattspyrnudeildarinnar.

Næsta æfing er því á mánudaginn kl 18:00

 

Kv, Örn