Álftanes - FH, stutt umfjöllun um leik í Faxaflóamóti

Sæl, öllsömul.

Við þjálfarar ætlum að fara nokkrum orðum um leikinn í Faxaflóamótinu í dag gegn FH.

Um ágætan leik var að ræða þar sem jafnræði var með liðum framan af. Mjög góðir kaflar voru í okkar leik, einkum í fyrri hálfleik og stúlkur voru að leysa vel stöðu undir pressu. Stóð 1-2 í leikhléi, FH í vil.

Í síðari hálfleik voru FH stúlkur ívið sterkari og við slökuðum aðeins á klónni. Mörk FH urðu fjögur í síðari hálfleik og við náðum að skora eitt. Lyktir leiks urðu því 2-6, FH í vil. Bæði mörk okkar skoraði Emilía. Um frábær mörk var að ræða, annað úr langskoti eftir frábært spil og hið síðar eftir einstaklingsframtak.

Heilt yfir erum við þjálfarar nokkuð sáttir við frammistöðuna og það eru framfarir hjá stúlkunum þrátt fyrir erfiða tíð og fáa kappleiki að undanförnu. Úrslitin gefa ekki rétt mynd af gangi leiks því leikurinn einkenndist svolítið af barningi inni á miðjunni þar sem hvorugu liðinu tókst að skapa sér mörg marktækifæri. Við vorum svolítið undir í baráttunni þegar á leið, þá einkum sökum þess að FH stúlkur unnu fleiri návígi úti á vellinum og við vorum svolítið rög á köflum. Þurfum að vera svolítið fastari fyrir og hugrakkari þegar við mætum líkamlega sterkum liðum. Það sem varð okkur kannski að falli var að mörk FH komu aðallega úr skotum þar sem við náðum ekki að setja pressu á leikmann með knöttinn.

Getum enn bætt okkur heilmikið og stúlkur þurfa að halda áfram að stunda íþróttina og trúa því að geta orðið betri, betri í dag en í gær o.s.frv. Við erum á réttri leið og við þurfum að halda ótrauð áfram, jákvæð og með viljann að vopni. 

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.

Álftanes - Selfoss/Hamar/Ægir, stutt umfjöllun

Sæl, öllsömul.

Stuttur pistill frá okkur þjálfurum um leikinn við Selfoss/Hamar/Ægi fyrr í dag.

Leikurinn var lagður upp með hápressu í huga, þ.e. að fara framar á völlinn en oft áður, verjast á vallarhelmingi mótherjans og setja mikla pressu á leikmann með knöttinn og vinna hann eins fljótt og unnt var. Auk þess að nota fáar snertingar, nota breidd vallarins og sækja a.m.k. á einum bakverði. Þá var leikið með tvo djúpa miðvallarleikmenn.

Allt gekk þetta upp þar sem okkar stúlkur sýndu allar sínar bestu hliðar. Í raun var um ójafnan leik að ræða, mun ójafnari en búast mátti við, sé tekið mið af úrslitum liðanna í riðlinum fram til þessa. Urmull marktækifæra skapaðist og gnótt marka leit dagsins ljós en mörkin urðu 12 talsins, án þess að Selfoss/Hamar/Ægir næði að setja mark. Að sjálfsögðu hefði verið skemmtilegra að fá öflugri mótspyrnu en svona er þetta stundum. Mörk Álftaness gerðu: Emilía 5, Vaka 2, Valgerður 2, Sara 1 og Silja 1.

Heilt yfir erum við þjálfarar ánægðir með frammistöðuna. Góðir spilakaflar sáust og samvinna tveggja til þriggja var góð, varnarleikurinn var góður og náðum við að setja góða pressu á mótherjann þegar hann hafði knöttinn (sem var ekki oft í leiknum). Síðast en ekki síst, allir fengu að spreyta sig.

Minnum svo á æfinguna á morgun, kl. 16. Hún verður ca klukkustund. 

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.

Stjarnan - Álftanes, stutt umfjöllun um leik í Faxaflóamóti

Sæl, öllsömul.

Ætlum að fara nokkrum orðum um leikinn á laugardag gegn Stjörnunni. Um hörkuleik var að ræða sem háður var við nokkuð erfiðar aðstæður, bæði vegna kulda og roks. Íslands í desember og því breytum við ekki.

Við náðum að setja fyrsta mark leiksins sem var kannski svolítið gegn gangi leiks. Þar var Mist á ferð en markið kom eftir svonefndan „gamm“, þ.e. Emilía skaut á mark, markvörður Stjörnunnar varði og Mist fylgi á eftir og skoraði. Það skemmtilega er að þetta æfum við skipulega. Gaman þegar hlutirnir af æfingasvæðinu ganga upp.
Eftir það var svolítið á brattann að sækja, Stjarnan sótti meira en við vorum hættuleg í okkar skyndisóknum. Stjarnan náði að setja tvö í fyrri hálfleik og stóð 2-1 í leikhléi.

Í síðari hálfleik var jafnræði með liðum sem skiptust á að sækja. Bæði lið fengu prýðileg marktækifæri en Stjarnan nýtti sín betur og náði að setja tvö mörk í lokin. Lyktir urðu því 4-1, Stjörnunni í vil. Að mati okkar þjálfara var það fullstórt.

Heilt yfir erum við þjálfarar ánægðir með frammistöðuna og þetta er allt á réttri leið. Það var hugsun á bak við það sem vorum að gera og við reyndum nánast ávallt að spila knettinum á samherja. Það sem við þurfum að vinna í og bæta er að reyna halda knetti aðeins betur inni á miðjunni og vera hugrakkari að halda honum. Þá fannst okkur smá glufur myndast milli miðvarða og bakvarða. Það þurfum við að þétta.

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.

Leikur í Faxaflóamóti 16. des., tilhögun

Sæl, öllsömul.

Á laugardag, 16. des., leikum við kappleik í Faxaflóamóti. Mótherjar eru Stjarnan og hefjast leikar kl. 11. Leikið verður á Stjörnuvelli.

Allar tiltækar stúlkur flokksins eru boðaðar. Mæting er á Stjörnuvöll kl. 10:15, en þar fáum við klefa. Mælst er til að stúlkur mæti fullbúnar til leiks.

Birgir Jónasson þjálfari.