Umfjöllun um síðustu tvo leiki í Íslandsmóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara nokkrum orðum um kappleiki vikunnar en í nægu hefur verið að snúast í þessari viku.

Fyrst er það mánudagsleikurinn í Grindavík. Byrjuðum leikinn ekki nægjanlega vel og fengum á okkur þrjú mörk á fyrstu sjö mínútum leiksins. Eftir það var að brattann að sækja. Verð þó að segja að leikurinn var oft og tíðum ekki ójafn úti á vellinum og við náðum alveg ágætum spilaköflum, án þess þó að ná að skapa okkur afgerandi marktækifæri, framan af. Réðum hins vegar illa við þrjár til fjórar stúlkur í liði Grindavíkur og því tapaðist leikurinn stórt. Helst gefa úrslit leiksins til kynna aldursmun en ekki getumun. Heilt yfir var þó frammistaðan ekki nægjanlega góð og við bárum of mikla virðingu fyrir mótherjanum. Að mínu mati fannst mér við vera svolítið ryðguð enda ekki leikið um nokkurt skeið. Vorum e.t.v. ekki alveg tilbúin í þetta verkefni á þessum tímapunkti. Fyrsta tap okkar í tvo mánuði því staðreynd.

Í síðari leiknum á Ísafirði snérist dæmið heldur betur við en um algjöra yfirburði okkar stúlkna var að ræða. Náðum þó e.t.v. ekki að nýta okkur þá yfirburði til fullnustu og framan af fannst mér við of rög við að skjóta á markið. Sköpuðum okkur mikið að tækifærum en náðum ekki að vinna nægjanlega vel úr þeim möguleikum og við vorum of mikið að reyna komast í gegnum miðjuna og þræða knöttinn í gegnum þröngt svæði á síðasta þriðjungi vallar, í stað þess að nota breidd vallar. Að mínu mati virkaði eins og við værum enn ryðguð og gerðum einnig svolítið af tæknifeilum. Fannst það þó lagast þegar á leikinn leið. Uppskárum að endingu góðan og öruggan sigur þar sem Valgerður og Emilía sáu um markaskorun. Heilt yfir var ég ánægður með frammistöðuna og ferðin var hin skemmtilegasta, þrátt fyrir síðbúna heimkomu. 

Byggjum á þessu stúlkur og það er stutt í næstu leiki, Afturelding/Fram á mánudag og RKV á miðvikudag. Báðir kappleikir fara fram heima. Þurfum að halda áfram og stefna á að þróa leik okkar og verða betri.

Birgir Jónasson þjálfari.

Alftanes - HK, stutt umfjöllun um leik í Íslandsmóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara nokkrum orðum um leik okkar fyrr í dag, gegn HK.

Enn á ný lékum við vel og sýndum okkar bestu hliðar en fyrr í sumar töpuðum við fyrir sama liði í hörkuleik, eftir að hafa leitt í hálfleik, 1-4, eins og einhverjir kannski muna. Nú var annað uppi á teningnum.  

Mér fannst við mun betra liðið frá fyrstu mínútu. Það tók smá tíma að brjóta ísinn en við gerðum þrjú mörk í fyrri hálfleik og fimm í þeim síðari og ógnuðum marki HK allan leikinn. Fengum hins vegar þrjú mörk á okkur en þau komu öll eftir skyndisóknir mótherjans, eftir að við höfðum legið í sókn. Erfitt að verjast slíku en við reyndum það og gerðum það reyndar mjög oft afar vel.

Mörk okkar komu, sem endranær, í öllum regnbogans litum. Allmörg komu þó eftir lipran samleik þar sem við náðum að nýta breitt vallar afar vel. Markaskorun var eftirfarandi: Vera 4, Emilía 2, Berglind 1 og Hildur 1.

Það sem ég er ánægðastur með í okkar leik í dag eru þrjú atriði. Í fyrsta lagi er það leikskipulag sem var mjög gott, bæði varnar- og sóknarlega. Bæði var það var samvinna tveggja til þriggja og hvernig liðið hreyfði sig og hvað við náðum að dreifa spili vel. Í öðru lagi var það einstaklingsframtak en leikmenn voru hugrakkir og mörg frábær tilþrif sáust í dag. Í þriðja lagi var það svo leikgleðin. Hún skein af hverju andliti.

Heilt yfir er ég afar stoltur af frammistöðunni og þeim framförum sem stúlkur hafa sýnt. Frábært hjá ykkur.

Birgir Jónasson þjálfari.

Breiðholt - Álftanes, stutt umfjöllun um leik í Íslandsmóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara nokkrum orðum um leikinn í gær gegn Breiðholti.

Í stuttu máli sýndu stúlkur allar sínar bestu hliðar og léku líklega sinn besta leik undir minni stjórn, fram til þessa. Stúlkurnar hreinlega sundurspiluðu Breiðholt frá upphafi til enda, en fyrirfram mátti búast við nokkuð jöfnum leik.

Gerðum fjögur mörk í fyrri hálfleik og sjö í hinum síðari. Breiðholt náði að setja eitt mark á okkur. Mörk okkar, sem hefðu hæglega getað orðið fleiri, gerðu Berglind, Emilía, Hildur, Mist, Vaka og Vera. Er vonandi ekki að gleyma neinum en mörk okkar komu í öllum regnbogans litum. Eitt eiga mörkin sammerkt, þau komu eftir samvinnu tveggja, þriggja og fjögurra leikmanna, ekki eftir einstaklingsframtök. Það tel ég afar jákvætt.  

Það sem ég var ánægðastur með var tvennt. Í fyrsta lagi var leikskipulagið mjög gott og liðið náði í varnarleiknum að falla aftur á réttum augnablikum (ekki síst aftasta varnarlína). Í sóknarleiknum náðum við enn fremur að nýta breidd vallarins til fullnustu og stækka völlinn um leið og við unnum hann. Í öðru lagi var sóknarleikur okkar framúrskarandi og hreint frábærir spilakaflar voru í leiknum, þar sem náðum að láta knöttinn fljóta, og í framhaldi skapa okkur urmul marktækifæra.

Heilt yfir er ég afar ánægður með frammistöðuna og hve stúlkur er áhugasamar og samstilltar. Þetta vill maður sjá sem þjálfari. Frábært hjá ykkur. Haldið áfram á sömu braut.

Birgir Jónasson þjálfari.

RKV - Álftanes, stutt umfjöllun um leik í Íslandsmóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara örfáum orðum um leikinn við RKV (Reynir/Keflavík/Víðir) í gær.

Um hörkuleik var að ræða þar sem aðstæður til knattspyrnuiðkunar, um hásumar, voru ekkert sérstakar. Fyrirfram mátti búast við að á brattann yrði að sækja. Jafnræði var með liðum og mér fannst stúlkurnar okkar ná að sýna allar sínu bestu hliðar og líklega leika sinn besta leik í sumar, fram til þessa.

Settum tvö virkilega góð mörk og leiddum leikinn um tíma, eftir að hafa lent undir snemma leiks. Niðurstaðan var jafntefli, 2-2, sem mögulega voru sanngjörn úrslit. Sigurinn hefði þó getað fallið með báðum liðum. Mörk okkar gerðu Vera og Berglind. Um virkilega góð mörk var að ræða sem bæði komu með skotum fyrir utan vítateig.

Heilt yfir fannst mér frammistaðan virkilega góð, frábærir spilakaflar voru í leik liðsins og þeir bestu sem ég hef séð hjá stúlkunum, fram til þessa. Reyndum við halda knettinum niðri og tókst það á köflum virkilega vel þar sem stúlkur voru yfirvegaðar og reyndu að finna næsta mann (samherja) í fætur. Sóknarleikurinn var virkilega góður, samvinna tveggja til þriggja manna var góð og við náðum að skapa okkur bæði marktækifæri og skotfæri fyrir utan vítateig.

Tel að þessi frammistaða sé gott vegnesti fyrir næstu kappleiki en sá næsti er á fimmtudag í Breiðholti. Getum svo sannarlega byggt á þessu. Flott hjá ykkur stúlkur.

Birgir Jónasson þjálfari.