Æfingaleikur við Gróttu á föstudag

Sæl, öllsömul!

Á föstudag, 9. nóvember, kl. 16:30 verður æfingaleikur hjá 4. flokki stúlkna þar sem att verður kappi við Gróttu. Leikin verður sjö manna knattspyrna og mun leikurinn fara fram á Gróttuvelli.

Allar stúlkur flokksins eru boðaðar auk Heklu og Sylvíu í 5. flokki.

Stúlkur þurfa að vera mættar á leikstað, fullbúnar til leiks, ca hálfri klukkustund fyrir leik eða um kl. 16.

Fólk er hvatt til þess að skipuleggja sig innbyrðis svo tryggja megi að allar stúlkur komist á áfangastað. Best væri ef unnt væri að leggja af stað frá íþróttahúsinu á Álftanesi um kl. 15:40.   

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.  

Brottför frá íþróttahúsi

Sæl, öllsömul!

Mælst er til þess að fólk mæti við íþróttahúsið á Álftanesi kl. 13:30 í dag og leggi af stað þaðan í framhaldi. Með því er með bestum hætti unnt að tryggja að allir komist á áfangastað. 

Birgir og Guðbjörn þjálfarar. 

Akranes - Álftanes: 3:3

Sæl, öllsömul!

Ég ætla þá að fara örfáum orðum um leik Álftaness og Akraness í Faxaflóamóti, keppni B-liða, sem fram fór í Akraneshöllinni fyrr í dag, sunnudag.

Um hörkuleik var að ræða þar sem lið Akraness var svolítið sterkara úti á vellinum og naut góðs af nokkrum líkamlegum yfirburðum. Skyndisóknir Álftaness voru þó stórhættulegar og skilaði ein slík fyrsta marki leiksins. Þar var Salka á ferð með gott mark eftir stungusendingu inn fyrir vörn Akraness. Forystan varði þó ekki lengi því Akranes náði að jafna metin fljótlega. Undir lok hálfleiksins náðu okkar stúlkur að skora aftur en þar var Snædís á ferð með keimlíkt mark og fyrsta mark leiksins, þ. e. eftir stungusendingu frá Söru inn fyrir vörn Akraness. Þannig stóð í leikhléi, 1:2, Álftanesi í vil.

Í síðari hálfleik byrjuðu okkar stúlkur betur og náðu að skora fyrsta mark hálfleiksins en þar var Salka á ferð með sitt annað mark eftir frábæran undirbúning frá Snædísi. Afar vel var staðið að markinu í alla staði; fyrirgjöf frá Snædísi út í teiginn eftir glæsilegt upphlaup og frábært skot frá Sölku efst í markhornið. Eftir þetta sóttu Akranesstúlkur stíft að marki Álftaness og náðu þær að jafna metin þegar nokkuð var á hálfleikinn liðið. Bæði lið fengu góð marktækifæri en fleiri urðu mörkin þó ekki og varð niðurstaðan jafntefli, 3:3. Að mínu mati geta okkar stúlkur vel við þau úrslit unað. Bæði liðu hefðu þó getað „stolið“ sigrinum undir lok leiks.

Heilt yfir er ég ánægður með frammistöðuna og baráttuvilja stúlknanna. Hafa ber í huga að flestar stúlkurnar hafa ekki leikið í 11 manna knattspyrnu áður. Mun fólk eiga eftir að sjá miklar framfarir þegar fram líða stundir. Það helsta sem upp á vantaði var að samleikur hefði mátt vera betri. Það jákvæðasta var góður varnarleikur og snarpur skyndisóknarleikur.

Birgir Jónasson þjálfari.