Íslandsmót á laugardag

Sæl, öllsömul!

Á laugardag fer fram síðari umferð Íslandsmóts í sjö manna knattspyrnu. Leikið verður á Álftanesi líkt og í fyrri umferð. Þrjú lið eru skráð til keppni, þ.e. Álftanes, Hvöt/Kormákur og Sindri. Hefjast leikir Álftaness kl. 13:30 og 15, sjá eftirandi vefslóð inni á vef Knattspyrnusambands Íslands: http://www.ksi.is/mot/motalisti/urslit-stada/?MotNumer=32563.

Athygli er vakin á því að upphaflega stóð til að leika æfingaleiki á sunnudag við sömu lið en eins og staðan er núna verða þeir leikir að öllum líkindum ekki þar sem hvorugt liðið mun gista.

Allar iðkendur flokksins eru boðaðir í umrætt verkefni og þurfa stúlkur að vera mættar í íþróttahúsið kl. 12:30 umræddan laugardag, því sem næst fullbúnar til leiks og helst í fatnaði merktun félagi. Stúlkur eru hvattar til þess að undirbúa sig eins og best verður á kosið, fara snemma að sofa, hvílast vel og mæta vel nærðar til leiks. Þá eru stúlkur hvattar til þess að hafa sykurneyslu í lágmarki daginn fyrir leik og á leikdegi, sem og að stilla tölvu- og símanotkun í hóf. Loks eru stúlkur hvattar til þess að hafa með sér létt nesti milli leikja og/eða tryggja það að hafa aðgang að nesti. 

Að loknum síðasta leik mótsins, um kl. 17:30, er fyrirhugað að bjóða upp á léttar veitingar í félagsaðstöðunni þar sem mótherjum okkar verður einnig boðið. Foreldrar/forráðamenn eru að sjálfsögðu velkomnir.

Foreldrar/forráðamenn eru svo hvattir til þess að koma á leikina og hvetja liðið til dáða enda eru þetta síðustu leikir sumarsins. Áfram Álftanes!

Birgir þjálfari.

Æfingaleikur við Sindra á sunnudag

Sæl, öllsömul!

Rétt í þessu var að skýrast að Sindrastúlkur munu gista á Álftanesi og munu leika æfingleik við Álftanes kl. 10 á sunnudagsmorgun. Nánari tilhögun þessa verður kunngerð á laugardag. 

Birgir þjálfari.

Æfingin á morgun, miðvikudag, með breyttu sniði

Sæl, öllsömul!

Á morgun, miðvikudag, verður æfingin með breyttu sniði en þá munum við hittast í félagsaðstöðunni kl. 17:15 og horfa saman á úrslitaleik Álftaness og Nykøbing FC á Rey cup með áherslu á leikgreiningu. 

Birgir þjálfari.

Álftanes - Breiðablik: 5-6

Sæl, öllsömul!

Ég ætla þá að fara örfáum orðum um æfingaleik Álftaness og Breiðabliks sem fram fór í gær, mánudag, við bestu hugsanlegar aðstæður á Álftanesi. Leikið var í sjö manna knattspyrnu. 

Um hörkuleik var að ræða þar sem okkar stúlkur hófu leikinn betur og náðu að skora fyrsta mark leiksins eftir örfáar mínútur. Þar var Sylvía á ferð eftir frábært einstaklingsframtak. Jafnræði var með liðum eftir þetta en þrátt fyrir það voru það Blikar sem sáu um að skora mörkin. Náðu Blikar að skora fjögur mörk án þess að okkar stúlkur næðu að svara fyrir sig, þrátt fyrir mörg prýðileg tækifæri til þess arna. Stóð 1-4 í leikhléi, Blikum í vil, tölur sem að mínu mati voru alltof stórar miðað við gang leiks.

Í síðari hálfleik byrjuðu Blikar mun betur og á innan við þremur mínútum náðu þær að setja tvö mörk með stuttu millibili og stóð þá 1-6, hreint ótrúlegar tölur. Virtust okkar stúlkur þá vakna til lífsins og náðu að skora fjögur mörk í röð, fyrst Salka með tvö frábær mörk, þá Ída María með eitt mark og loks Sylvía með eitt. Mikil pressa var á Blika síðari hluta hálfleiksins en lengra komust okkar stúlkur ekki og urðu lyktir því 5-6, Blikum í vil. Úr því sem komið var eru þetta góð úrslit en miðað við gangs þá kannski ekki endilega. Úrslit eru þó afstæð í þessu sambandi, mestu máli skiptir að frammistaðan var góð. 

Heilt yfir er ég mjög ánægður með leik stúlknanna sem léku á köflum mjög vel og líklega betur en ég hef áður séð þær í sumar. Mjög gott flæði var á knettinum en hafa ber í huga að mótherjinn var sá langsterkasti sem liðið hefur mætt það sem af er sumri, blöndu úr liðum A1, A2 og B1 hjá liðum Breiðabliks, þar sem allar stúlkur voru stórar, sterkar og frambærilegar í knattspyrnu. Þá var ég ánægður með að mörgum sóknum lauk með markskotum en það hefur verið svolítið vandamál það sem af er sumri. Loks er á ánægður með að stúlkur héldu skipulagi og gáfust ekki upp þrátt fyrir að lenda fimm mörkum undir. Enn fremur vorum við í leik þessum að reyna nýja hluti sem gengu framúrskarandi vel, þá einkum stöðuskiptingar, þar sem leikurinn var brotinn upp. Það helsta sem gagnrýna mætti er að varnarleikur liðsins hefði mátt vera aðeins betri en oft og tíðum voru Blikar nokkuð lausir og nokkur markanna voru ódýr þar sem engin pressa var sett á leikmann með knöttinn. Vonandi gefur leikur þessi stúlkunum aukið sjálftraust og byr undir báða vængi fyrir átök helgarinnar. Nánar um það síðar. 

Birgir þjálfari.