Álftanes - Stjarnan, stutt umfjöllun um leik í Faxaflóamóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara örfáum orðum um leik okkar við Stjörnuna á laugardag.

Á brattann var að sækja hjá okkur að þessu sinni, eins og við var að búast. Réðum við illa við hápressu Stjörnunnar og framan af náðum upp litlu spili. Af þeim sökum var mikið um feilsendingar. Mér fannst það lagast þegar á leikinn leið og einkum í síðari hálfleik náðum við að ógna marki Stjörnunnar nokkrum sinnum eftir góðan samleik. Náðum við að setja eitt mark í leiknum sem kom úr frábæru langskoti. Þar var Emilía á ferð.

Heilt yfir er ég sæmilega sáttur við frammistöðuna. Það er erfitt að spila við lið eins og Stjörnuna sem hefur á að skipa mörgum frambærilegum stúlkum og maður í raun veit maður aldrei hvaða liði maður er að fara mæta.

Við eigum mikið inni og úrslit leiksins fannst mér ekki gefa rétta mynd af gangi leiksins. Við þurfum að halda áfram stúlkur og reyna bæta okkur. Við getum það en gerist aðeins með markvissum æfingum, vinnusemi og jákvæðu hugarfari. Er alveg sannfærður um að við gerum betur næst.

Birgir Jónasson þjálfari.

Breiðablik - Álftanes, stutt umfjöllun um leik í Faxaflóamóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara örfáum orðum um leik okkar gegn Breiðablik í gær.

Byrjuðum leikinn vel og náðum að skora fyrsta mark leiksins eftir nokkra mínútna leik (Emilía eftir góðan undirbúning frá Berglindi). Blikar voru fljótir að svara og náðu að setja á okkur tvö mörk með skömmu millibili. Eftir það var leikur okkar í fyrri hálfleik ekki nægjanlega góður og við vorum undir í mjög mörgu, þá einkum í návígjum, en Blikar voru einfaldlega mun áræðnari, þrátt fyrir að lítill munur virtist vera á liðunum, getulega.

Lékum betur í síðari hálfleik, einum framan af. Náðum þó ekki að ógna marki Blika neitt sérstaklega en fengum á okkur mörk í staðinn.

Heilt yfir fannst mér við ekki leika nægjanlega vel. Það sem varð okkur að falli var skortur á áræðni og ákveðni og mér fannst hugurinn vera annars staðar. Af þeim sökum bitum við ekki nægjanlega frá okkur og hefðum mátt láta finna meira fyrir okkur, eftir allt harkið undanfarnar vikur í öllum veðrum. Mér fannst við ráða illa við pressu frá markspyrnu og of mörg mörk komu þannig. Nánar tiltekið mættum við ekki knettinum, stóðum með bakið í völlinn, Blikar stigu fram, hirtu hann og hætta skapaðist. Grimmd og þéttleika vantaði við þessar aðstæður. Vert er að hafa í huga að í knattspyrnu er ekki síður mikilvægt hvað leikmaður gerir án knattar, þar sem leikmaður er ca 98% leiktímans án hans. Það sem er hins vegar jávætt er að góðir spilakaflar voru í leiknum og stúlkur hættu ekki að reyna láta hann ganga.  

Er ekki í vafa um að við getum mun betur en í gær og úrslitin gefa á engan hátt til kynna muninn á liðunum.

Við þurfum að snúa við blaðinu og bæta okkar leik. Það gerum við með því að halda áfram og stunda íþróttina af kappi og gefast ekki upp.      

Birgir Jónasson þjálfari.

Álftanes - FH, stutt umfjöllun um leik í Faxaflóamóti

Sæl, öllsömul.

Við þjálfarar ætlum að fara nokkrum orðum um leikinn í Faxaflóamótinu í dag gegn FH.

Um ágætan leik var að ræða þar sem jafnræði var með liðum framan af. Mjög góðir kaflar voru í okkar leik, einkum í fyrri hálfleik og stúlkur voru að leysa vel stöðu undir pressu. Stóð 1-2 í leikhléi, FH í vil.

Í síðari hálfleik voru FH stúlkur ívið sterkari og við slökuðum aðeins á klónni. Mörk FH urðu fjögur í síðari hálfleik og við náðum að skora eitt. Lyktir leiks urðu því 2-6, FH í vil. Bæði mörk okkar skoraði Emilía. Um frábær mörk var að ræða, annað úr langskoti eftir frábært spil og hið síðar eftir einstaklingsframtak.

Heilt yfir erum við þjálfarar nokkuð sáttir við frammistöðuna og það eru framfarir hjá stúlkunum þrátt fyrir erfiða tíð og fáa kappleiki að undanförnu. Úrslitin gefa ekki rétt mynd af gangi leiks því leikurinn einkenndist svolítið af barningi inni á miðjunni þar sem hvorugu liðinu tókst að skapa sér mörg marktækifæri. Við vorum svolítið undir í baráttunni þegar á leið, þá einkum sökum þess að FH stúlkur unnu fleiri návígi úti á vellinum og við vorum svolítið rög á köflum. Þurfum að vera svolítið fastari fyrir og hugrakkari þegar við mætum líkamlega sterkum liðum. Það sem varð okkur kannski að falli var að mörk FH komu aðallega úr skotum þar sem við náðum ekki að setja pressu á leikmann með knöttinn.

Getum enn bætt okkur heilmikið og stúlkur þurfa að halda áfram að stunda íþróttina og trúa því að geta orðið betri, betri í dag en í gær o.s.frv. Við erum á réttri leið og við þurfum að halda ótrauð áfram, jákvæð og með viljann að vopni. 

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.

Álftanes - Selfoss/Hamar/Ægir, stutt umfjöllun

Sæl, öllsömul.

Stuttur pistill frá okkur þjálfurum um leikinn við Selfoss/Hamar/Ægi fyrr í dag.

Leikurinn var lagður upp með hápressu í huga, þ.e. að fara framar á völlinn en oft áður, verjast á vallarhelmingi mótherjans og setja mikla pressu á leikmann með knöttinn og vinna hann eins fljótt og unnt var. Auk þess að nota fáar snertingar, nota breidd vallarins og sækja a.m.k. á einum bakverði. Þá var leikið með tvo djúpa miðvallarleikmenn.

Allt gekk þetta upp þar sem okkar stúlkur sýndu allar sínar bestu hliðar. Í raun var um ójafnan leik að ræða, mun ójafnari en búast mátti við, sé tekið mið af úrslitum liðanna í riðlinum fram til þessa. Urmull marktækifæra skapaðist og gnótt marka leit dagsins ljós en mörkin urðu 12 talsins, án þess að Selfoss/Hamar/Ægir næði að setja mark. Að sjálfsögðu hefði verið skemmtilegra að fá öflugri mótspyrnu en svona er þetta stundum. Mörk Álftaness gerðu: Emilía 5, Vaka 2, Valgerður 2, Sara 1 og Silja 1.

Heilt yfir erum við þjálfarar ánægðir með frammistöðuna. Góðir spilakaflar sáust og samvinna tveggja til þriggja var góð, varnarleikurinn var góður og náðum við að setja góða pressu á mótherjann þegar hann hafði knöttinn (sem var ekki oft í leiknum). Síðast en ekki síst, allir fengu að spreyta sig.

Minnum svo á æfinguna á morgun, kl. 16. Hún verður ca klukkustund. 

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.