Rey cup, 2. dagur, úrslit og umfjöllun

Sæl, öllsömul!

Álftanes lék tvo leiki á Rey cup í dag, laugardag, en það voru síðustu lokaleikir liðsins í riðlakeppni mótsins. Úrslit urðu sem hér segir (nöfn markaskorara innan sviga):

Álftanes – Þróttur: 7-0 (Ída María 3, Salka 2, Eva 1, Sylvía 1)
Álftanes – Nykøbing FC: 5-0 (Ída María 4, Eva 1)

Í fyrri leik mótsins var um fádæma yfirburði að ræða gegn Þrótti en leikurinn var mjög vel leikinn af hálfu okkar stúlkna. Þess ber að geta að Þróttarstúlkur léku m.a. einum fleiri í síðari hálfleik en það skipti litlu máli, svo mikið bar á milli. Jafnvægið í leik liðsins var mjög gott og á köflum sáust frábærir spilakaflar enda sá dómari leiksins, af bresku bergi brotinn, ástæðu til þess að hrósa liði Álftaness fyrir léttleika (það hafði reyndar annar dómari einnig gert í gær).  

Í síðari mótsleiknum var leikið gegn danska liðinu Nykøbing FC. Fyrirfram var búist við hörkuleik en lið þessi höfðu, þegar hér var komið sögu, bæði unnið alla sína leiki í mótinu með yfirburðum og voru jöfn að stigum. Álftaness stúlkur voru hins vegar mun betri allt frá fyrstu mínútu og yfirspiluðu danska liðið. Var ekki spurning hvar léttleikinn var en stundum hefur verið sagt um danska knattspyrnumenn að þeir séu Brasilíumenn Norðurlandanna. Ef svo er, voru okkar stúlkur Þjóðverjar Norðurlandanna en lyktir leiks urðu 5-0, okkar stúlkum í vil og var sá sigur síst of stór. Áttu allar stúlkur sinn besta dag og léku framúrskarandi.

Heilt yfir er ég mjög sáttur við frammistöðu stúlknanna í dag sem sýndu sparihliðarnar og hefði ekki verið unnt að biðja um meira. Úrslit þessi þýða að Álftaness mun leika til úrslita á morgun, sunnudag, þar sem att verður kappi á ný við danska liðið Nykøbing FC. Þá telur leikurinn í dag ekki og þurfa stúlkur því að mæta einbeittar til leiks og ekki vanmeta dönsku stallsysturnar sem kunna ýmislegt fyrir sér, eru líkamlega sterkar og harðar í horn að taka.

Birgir þjálfari.

Rey cup á morgun, sunnudag

Sæl, öllsömul!

Samkvæmt leikjaáætlun Rey cup mun Álftanes leika til úrslita við danska liðið Nykøbing FC á morgun, sunnudag, og hefjast leikar kl. 13 á sama leikvelli og leikið hefur verið á allt mótið. Um er að ræða lokaleik Álftaness á mótinu. 

Stúlkur eiga að mæta við íþróttahúsið á Álftanesi kl. 10:15 í fyrramálið í fatnaði merktum félagi og því sem næst fullbúnar til leiks en þaðan verður haldið að Sóltúni 13 í Reykjavík, að heimili ömmu Svandísar, þar sem stúlkur, þjálfari og liðsstjóri munu borða saman morgunverð. Í framhaldi verður svo gengið á leikstað en þaðan mun vera um 15 mínútna gangur. Ráðgert er að stúlkur verði mættar eigi síðar en 45 mínútum fyrir leik á leikstað.

Verðlaunaafhending og mótslok eru svo frá kl. 15:15 til 16:00. Gengið er út frá að allar stúlkur muni taka þátt í því en lið Álftaness hefur þegar tryggt sér verðlaunasæti á mótinu.

Birgir þjálfari.

Rey cup, 1. dagur, úrslit og umfjöllun

Sæl, öllsömul!

Álftanes lék þrjá leiki á Rey cup í dag, hinir tveir fyrri voru í mótinu en sá þriðji æfingaleikur. Úrslit urðu sem hér segir (nöfn markaskorara innan sviga):

Mótsleikir
Álftanes – Fjarðabyggð: 11-1 (Ída María 4, Salka 3, Eva 2, Anna Bríet 1, Selma 1)
Álftanes - Ringvasoy IL: 6-0 (Ída María 3, Anna Bríet 1, Salka 1, Selma 1)

Æfingaleikur
Álftanes – Fjarðabyggð: 0-0

Í fyrsta leik mótsins var um algjöra yfirburði að ræða gegn Fjarðabyggð en fyrri hálfleikur var einkar vel leikinn þar sem knötturinn gekk stúlkna á milli í fáum snertingum. Stóð 8-0 í leikhléi. Síðari hálfleikur var ekki nærri eins góður en þá fóru stúlkur að nota fleiri snertingar og mjög hægðist á leiknum. Þá náðu okkar stúlkur ekki að vinna nægjanlega vel úr stöðunni þrjár gegn tveimur sóknarlega en sú staða kom ítrekað upp í leiknum. Þá slitnaði leikur liðsins allmikið í sundur í síðari hálfleik.

Í síðari mótsleiknum var leikið gegn norska liðinu Ringvasoy IL. Um algjöra yfirburði var einnig að ræða í þeim leik, þar sem okkar stúlkur sóttu allan leikinn og norsku stúlkurnar áttu því sem næst ekki skot á mark. Mjög góðir spilakaflar sáust í leiknum og allmikið öryggi var í leik liðsins og gott flæði. Mörk Álftaness hefðu hæglega getað orðið mun fleiri en lyktir urðu 6-0 fyrir Álftanesi en 2-0 stóð í leikhléi.

Síðasti leikur dagsins var æfingaleikur gegn Fjarðabyggð en þann leik léku fjórar stúlkur í 5. flokki og þær stúlkur sem minnst léku í dag. Þá lék Svandís markvörður sem útileikmaður. Skemmst er frá að segja að um spennandi leik var að ræða þar sem okkar stúlkur höfðu yfirhöndina en inn vildi knötturinn ekki. Markalaust jafntefli var því niðurstaðan. Heilt yfir var leikurinn vel spilaður og útfærður af hálfu okkar stúlkna.  

Heilt yfir er ég mjög sáttur við frammistöðu stúlknanna í dag sem sýndu mörg skemmtilega tilþrif. Helst fannst mér leikur liðsins detta svolítið niður í síðari hálfleik gegn Fjarðabyggð og þar hefði ég viljað sjá meiri leikgleði og ákefð. Þetta er gott vegnesti fyrir stúlkurnar sem geta verði stoltar af sinni frammistöðu.  

Spennandi dagur framundan á morgun, fyrst gegn Þrótti og síðan gegn danska liðinu Nykøbing FC.

Birgir þjálfari.

Rey cup á morgun, laugardag

Sæl, öllsömul!

Samkvæmt leikjaáætlun er fyrri leikur Álftaness á Rey cup á morgun, laugardag, kl. 11, þar sem att verður kappi við Þrótt. Síðari leikur dagsins er við danska liðið Nykøbing FC kl. 15. 

Stúlkur eiga að mæta við íþróttahúsið kl. 9:45 í fyrramálið í fatnaði merktum félagi og fullbúnar til leiks en lagt verður af stað í framhaldi á leikstað með einkabifreiðum, líkt og í dag.

Ekki er reiknað með að stúlkur fari heim á milli leikja á morgun heldur er m.a. fyrirhugað að fara í myndatöku en að öðru leyti er mælst til þess að stúlkur haldi að einhverju leyti hópinn. Af þessu tilefni þurfa stúlkur einnig að hafa hollt og gott nesti með sér milli leikja.

Að síðari leik loknum er ráðgert að stúlkur fari heim og komi svo prúðbúnar kl. 19 í grillveislu mótsins í fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Klukkan 20:30 er svo fyrirhuguð sameiginleg kvöldganga að Hilton Reykjavík Nordica en þar fer fram lokahóf og stórdansleikur frá kl. 20:30 til 23. Um nánara fyrirkomulag þessa verður svo rætt á morgun. 

Birgir þjálfari.