Breiðholt - Álftanes, stutt umfjöllun um leik í Íslandsmóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara nokkrum orðum um leikinn í gær gegn Breiðholti.

Í stuttu máli sýndu stúlkur allar sínar bestu hliðar og léku líklega sinn besta leik undir minni stjórn, fram til þessa. Stúlkurnar hreinlega sundurspiluðu Breiðholt frá upphafi til enda, en fyrirfram mátti búast við nokkuð jöfnum leik.

Gerðum fjögur mörk í fyrri hálfleik og sjö í hinum síðari. Breiðholt náði að setja eitt mark á okkur. Mörk okkar, sem hefðu hæglega getað orðið fleiri, gerðu Berglind, Emilía, Hildur, Mist, Vaka og Vera. Er vonandi ekki að gleyma neinum en mörk okkar komu í öllum regnbogans litum. Eitt eiga mörkin sammerkt, þau komu eftir samvinnu tveggja, þriggja og fjögurra leikmanna, ekki eftir einstaklingsframtök. Það tel ég afar jákvætt.  

Það sem ég var ánægðastur með var tvennt. Í fyrsta lagi var leikskipulagið mjög gott og liðið náði í varnarleiknum að falla aftur á réttum augnablikum (ekki síst aftasta varnarlína). Í sóknarleiknum náðum við enn fremur að nýta breidd vallarins til fullnustu og stækka völlinn um leið og við unnum hann. Í öðru lagi var sóknarleikur okkar framúrskarandi og hreint frábærir spilakaflar voru í leiknum, þar sem náðum að láta knöttinn fljóta, og í framhaldi skapa okkur urmul marktækifæra.

Heilt yfir er ég afar ánægður með frammistöðuna og hve stúlkur er áhugasamar og samstilltar. Þetta vill maður sjá sem þjálfari. Frábært hjá ykkur. Haldið áfram á sömu braut.

Birgir Jónasson þjálfari.

RKV - Álftanes, stutt umfjöllun um leik í Íslandsmóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara örfáum orðum um leikinn við RKV (Reynir/Keflavík/Víðir) í gær.

Um hörkuleik var að ræða þar sem aðstæður til knattspyrnuiðkunar, um hásumar, voru ekkert sérstakar. Fyrirfram mátti búast við að á brattann yrði að sækja. Jafnræði var með liðum og mér fannst stúlkurnar okkar ná að sýna allar sínu bestu hliðar og líklega leika sinn besta leik í sumar, fram til þessa.

Settum tvö virkilega góð mörk og leiddum leikinn um tíma, eftir að hafa lent undir snemma leiks. Niðurstaðan var jafntefli, 2-2, sem mögulega voru sanngjörn úrslit. Sigurinn hefði þó getað fallið með báðum liðum. Mörk okkar gerðu Vera og Berglind. Um virkilega góð mörk var að ræða sem bæði komu með skotum fyrir utan vítateig.

Heilt yfir fannst mér frammistaðan virkilega góð, frábærir spilakaflar voru í leik liðsins og þeir bestu sem ég hef séð hjá stúlkunum, fram til þessa. Reyndum við halda knettinum niðri og tókst það á köflum virkilega vel þar sem stúlkur voru yfirvegaðar og reyndu að finna næsta mann (samherja) í fætur. Sóknarleikurinn var virkilega góður, samvinna tveggja til þriggja manna var góð og við náðum að skapa okkur bæði marktækifæri og skotfæri fyrir utan vítateig.

Tel að þessi frammistaða sé gott vegnesti fyrir næstu kappleiki en sá næsti er á fimmtudag í Breiðholti. Getum svo sannarlega byggt á þessu. Flott hjá ykkur stúlkur.

Birgir Jónasson þjálfari.

Afturelding/Fram - Álftanes, stutt umfjöllun um leik í Íslandsmóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara örfáum orðum um leikinn við Aftureldingu/Fram.

Byrjuðum leikinn afar vel og skorðum á fyrstu mínútu leiks með hreint frábæru marki þar sem knötturinn gekk frá aftasta til fremsta manns og Emilía náði að skora. Mótherjinn var hins vegar sterkur og við vissum að á brattann yrði að sækja. Það kom á daginn, auk þess sem lítið féll með okkur.

Sýndum góðan leik á köflum en við ofurefli var þó að etja á marga vísu. Vorum undir í návígjum þrátt fyrir að bíta frá okkur á köflum og réðum illa við kraftinn í liði mótherjans sem hafði á að skipa mörgum stúlkum á eldra ári. Við náðum að skapa okkur svolítið af marktækifærum, einkum í fyrri hálfleik, en alltof oft vantaði að reka smiðhöggið í sóknunum þar sem skot okkar hreinlega drifu ekki á markið. Allt kom því fyrir ekki og við töpuðum fyrir sterkari mótherja.

Heilt yfir var frammistaðan nokkuð góð, t.d. var fyrri hálfleikur vel leikinn. Held að þetta hafi verið okkar besti leikur í sumar og framan af leik stóðum við í þeim. Á þeim tíma leiks féllu hlutirnir ekki fyrir okkur og mótherjinn náði að færa sér það í nyt.

Þetta fer í reynslubankann og ekkert annað unnt að gera en að halda áfram. 

Birgir Jónasson þjálfari.

Álftanes - Grindavík, stutt umfjöllun um leik í Íslandsmóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara örfáum orðum um leikinn við Grindavík í Íslandsmóti.

Um nokkuð jafnan leik var ræða, einkum úti á vellinum. Augljósir líkamlegir yfirburðir voru þó á liðunum þar sem lið Grindavíkur hefur að skipa nær eingöngu stúlkum á eldra ári. Þetta setti strik í reikninginn því Grindavíkurstúlkur spiluðu fast og eiginlega alltof fast á köflum, að mínu mati.  

Við náðum þó að verjast vel stærstan hluta leiks, skapa okkur fullt af möguleikum sóknarlega og það voru góðir spilakaflar í þessu hjá okkur. Stóran hluta leiks voru við inni í honum þrátt fyrir að hafa tapað honum 1-6. Þær tölur finnst mér ekki gefa rétta mynd af leiknum og gangi leiksins. Mark okkar gerði Vaka en einkar vel var að því marki staðið.

Er heilt yfir ánægður með frammistöðuna. Það sem við hefðum e.t.v. mátt gera betur og þurfum að æfa er að falla aftar á völlinn með öftustu línu þegar ekki næst að setja pressu á leikmann með knöttinn. Þá er auðvitað brýnt að setja ávallt pressu á leikmanninn með knöttinn á ákveðnum stöðum á vellinum, einkum á eigin vallarhelmingi. Þetta verður ekki kennt á einni nóttu og mun lærast smám saman.

Næsti kappleikur er svo á fimmtudag, kl. 16, gegn sameiginlegu liði Aftureldingar/Fram. Leikið verður í efri byggðum Reykjavíkur.

Birgir Jónasson þjálfari.