Rey cup, 1. dagur, úrslit og umfjöllun

Sæl, öllsömul!

Álftanes lék þrjá leiki á Rey cup í dag, hinir tveir fyrri voru í mótinu en sá þriðji æfingaleikur. Úrslit urðu sem hér segir (nöfn markaskorara innan sviga):

Mótsleikir
Álftanes – Fjarðabyggð: 11-1 (Ída María 4, Salka 3, Eva 2, Anna Bríet 1, Selma 1)
Álftanes - Ringvasoy IL: 6-0 (Ída María 3, Anna Bríet 1, Salka 1, Selma 1)

Æfingaleikur
Álftanes – Fjarðabyggð: 0-0

Í fyrsta leik mótsins var um algjöra yfirburði að ræða gegn Fjarðabyggð en fyrri hálfleikur var einkar vel leikinn þar sem knötturinn gekk stúlkna á milli í fáum snertingum. Stóð 8-0 í leikhléi. Síðari hálfleikur var ekki nærri eins góður en þá fóru stúlkur að nota fleiri snertingar og mjög hægðist á leiknum. Þá náðu okkar stúlkur ekki að vinna nægjanlega vel úr stöðunni þrjár gegn tveimur sóknarlega en sú staða kom ítrekað upp í leiknum. Þá slitnaði leikur liðsins allmikið í sundur í síðari hálfleik.

Í síðari mótsleiknum var leikið gegn norska liðinu Ringvasoy IL. Um algjöra yfirburði var einnig að ræða í þeim leik, þar sem okkar stúlkur sóttu allan leikinn og norsku stúlkurnar áttu því sem næst ekki skot á mark. Mjög góðir spilakaflar sáust í leiknum og allmikið öryggi var í leik liðsins og gott flæði. Mörk Álftaness hefðu hæglega getað orðið mun fleiri en lyktir urðu 6-0 fyrir Álftanesi en 2-0 stóð í leikhléi.

Síðasti leikur dagsins var æfingaleikur gegn Fjarðabyggð en þann leik léku fjórar stúlkur í 5. flokki og þær stúlkur sem minnst léku í dag. Þá lék Svandís markvörður sem útileikmaður. Skemmst er frá að segja að um spennandi leik var að ræða þar sem okkar stúlkur höfðu yfirhöndina en inn vildi knötturinn ekki. Markalaust jafntefli var því niðurstaðan. Heilt yfir var leikurinn vel spilaður og útfærður af hálfu okkar stúlkna.  

Heilt yfir er ég mjög sáttur við frammistöðu stúlknanna í dag sem sýndu mörg skemmtilega tilþrif. Helst fannst mér leikur liðsins detta svolítið niður í síðari hálfleik gegn Fjarðabyggð og þar hefði ég viljað sjá meiri leikgleði og ákefð. Þetta er gott vegnesti fyrir stúlkurnar sem geta verði stoltar af sinni frammistöðu.  

Spennandi dagur framundan á morgun, fyrst gegn Þrótti og síðan gegn danska liðinu Nykøbing FC.

Birgir þjálfari.

Rey cup á morgun, laugardag

Sæl, öllsömul!

Samkvæmt leikjaáætlun er fyrri leikur Álftaness á Rey cup á morgun, laugardag, kl. 11, þar sem att verður kappi við Þrótt. Síðari leikur dagsins er við danska liðið Nykøbing FC kl. 15. 

Stúlkur eiga að mæta við íþróttahúsið kl. 9:45 í fyrramálið í fatnaði merktum félagi og fullbúnar til leiks en lagt verður af stað í framhaldi á leikstað með einkabifreiðum, líkt og í dag.

Ekki er reiknað með að stúlkur fari heim á milli leikja á morgun heldur er m.a. fyrirhugað að fara í myndatöku en að öðru leyti er mælst til þess að stúlkur haldi að einhverju leyti hópinn. Af þessu tilefni þurfa stúlkur einnig að hafa hollt og gott nesti með sér milli leikja.

Að síðari leik loknum er ráðgert að stúlkur fari heim og komi svo prúðbúnar kl. 19 í grillveislu mótsins í fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Klukkan 20:30 er svo fyrirhuguð sameiginleg kvöldganga að Hilton Reykjavík Nordica en þar fer fram lokahóf og stórdansleikur frá kl. 20:30 til 23. Um nánara fyrirkomulag þessa verður svo rætt á morgun. 

Birgir þjálfari.

Rey cup á morgun, föstudag

Sæl, öllsömul!

Samkvæmt leikjaáætlun er fyrsti leikur Álftaness á Rey cup á morgun, föstudag, kl. 10, þar sem att verður kappi við Fjarðabyggð. Þá verður leikið við norska liðið Ringvasoy IL kl. 16.

Sú breyting hefur verið gerð á leikjafyrirkomulagi morgundagsins að bætt hefur verið við einum leik, kl. 18, en þá verður att kappi við lið Fjarðabyggðar á ný. Í þann leik eru stúlkur úr 5. flokki boðaðar, þ.e. Birta, Guðný, Katrín og Silja, en þetta er eini leikur mótsins þar sem heimilt verður að leika með stúlkur sem ekki eru skráðar á mótið. Leikur þessi er einnig hugsaður fyrir þær sem ekki byrja inn á í öðrum leikjum, og þá mun Svandís maðurvörður leika sem útileikmaður í þessum leik. Tekið skal fram að leikur þessi er ekki hluti af mótinu heldur æfingaleikur sem fram fer að ósk Fjarðabyggðar, gagngert til þess að leika sex leiki í mótinu.

Vakin er athygli á því að allir leikir á morgun, sem og aðra daga móts, munu fara fram á sama leikvelli, þ.e. velli sem næstur er Suðurlandsbraut.

Stúlkur eiga að mæta við íþróttahúsið kl. 8:45 í fyrramálið í fatnaði merktum félagi og fullbúnar til leiks en lagt verður af stað í framhaldi á leikstað með einkabifreiðum. Þá er reiknað með að stúlkur fari heim að leik loknum og komi aftur á leikstað eigi síðar en 45 mínútum fyrir síðari mótsleikinn og dvelji á mótssvæði þar til leikjum Álftaness lýkur þann daginn, eða um kl. 19.

Birgir þjálfari.

Rey cup, breyting á leikjafyrirkomulagi

Sæl, öllsömul!

Sú breyting hefur orðið á leikjafyrirkomulagi Rey cup að óstaðfest lið, NN2, mun ekki taka þátt. Staðan er því sú að liðum mun fækka um eitt og verða fimm í stað sex.

Hefur þetta þær breytingar í för með sér að fyrirhugaður leikur á morgun, fimmtudag, verður ekki. Mögulega mun þetta einnig hafa áhrif á dagskrá sunnudags, eftir því hvernig mótið spilast. Af þessu leiðir að Álftanes mun ekki hefja leik á mótinu fyrr en á föstudag og þá samkvæmt áður auglýstu leikjaplani, þ.e. kl. 10 árdegis. 

Birgir þjálfari.