HK - Álftanes, stutt umfjöllun um leik í Íslandsmóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara örfáum orðum um leikinn við HK í gær.

Byrjuðum leikinn betur og skoruðum snemma leiks. Fyrri hálfleikur var nánast einstefna en veður setti nokkurt strik í reikninginn, en talsverður vindur var, sem við lékum með í bakið í fyrri hálfleik. Náðum við að setja fjögur mörk í fyrri hálfleik gegn einu frá HK (mörk okkar gerðu Emilía 3 og Vaka 1). Þrátt fyrir þessa stöðu gekk okkur erfiðlega að ráða við knöttinn vegna vinds og mikið var um háloftaspyrnur og ónákvæmar sendingar. Heilt yfir var þó fyrri hálfleikur góður. 

Í síðari hálfleik byrjuðum við betur en smám saman jafnaðist leikurinn. Síðari hluti síðari hálfleiks var hálfgerð einstefna að okkar marki, þar sem við vorum undir alls staðar, og náði HK að setja á okkur fjögur mörk, án þess að við næðum að svara því. Lyktir urðu því 5-4, HK í vil. Get ekki sagt að sigur HK hafi endilega verið verðskuldaður.

Heilt yfir fannst mér frammistaða okkar ekki nægjanlega góð, þrátt fyrir ágæt tilþrif í fyrri hálfleik og góð mörk. Okkur gekk hins vegar illa að halda knettinum niðri á jörðinni og spila honum upp völlinn, eins og við getum gert og höfum gert. Þá fannst mér við falla of mikið niður á sama plan og lið HK, sem var ekki vel spilandi og byggði einkum á líkamlegum styrk. Þá fannst mér við ekki vinna nægjanlega vel úr stöðunni maður gegn manni og vorum einhvern veginn undir í návígjum úti á vellinum.

Við söknuðum nokkurra stúlkna í leiknum en þrátt fyrir það getum við gert betur og það munum við gera í næsta leik. Er sannfærður um það.  

Birgir Jónasson þjálfari.

Álftanes - FH, stutt umfjöllun um leik í Faxaflóamóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara nokkrum orðum um leikinn við FH í dag.

Lögðum leikinn upp með aðeins öðrum hætti en við höfum verið að gera, þ.e. ætluðum hátt á völlinn og að pressa mótherjann. Það gafst þó ekki betur en svo að í upphafi leiks fengum við á okkur þrjú mörk og lékum ekki vel. Nánar tiltekið komust við varla fram fyrir miðju á fyrstu mínútum leiksins, bæði vegna vinds og pressu frá mótherja. 

Eftir ca 15 mínútna leik fannst mér við eiginlega vakna til lífsins og þá fór þetta að ganga betur. Náðum við upp góðu spili, einkum inni á miðjunni, og náðum skapa okkur nokkur færi. Eitt skilaði frábæru marki sem Vaka skoraði eftir undirbúning frá Veru og Berglindi. Virkilega vel að verki staðið, þar sem við náðum upp góðum samleik í fáum snertingum og spiluðum okkur nánast inn í mark FH. FH náði að skora eitt til viðbótar og stóð 1-4 í leikhléi. Að mínu mati alltof stórt m.v. gang leiks og getu liðanna.

Í síðari hálfleik var þetta 50/50 leikur þar sem mér fannst við betur spilandi og náðum að skapa okkur fullt af marktækifærum, hálffærum og skotfærum. Fór svo að bæði lið gerðu sitt hvort markið en mark okkar gerði Berglind með svonefndum „gammi“, þ.e. fylgdi vel á eftir markskoti. Lyktir urðu því 2-5, FH í vil. Að mínu mati of stórt tap m.v. gang leiks.  

Heilt yfir fannst mér stúlkur leika vel, ef undan eru skildar fyrstu mínútur leiks, og líklega er þetta besta frammistaða liðsins í vetur. Hef eignlega verið að bíða eftir þessu því ég veit að það býr meira í stúlkum en úrslit hafa verið að gefa til kynna. Mér fannst vera barátta í stúlkum, gott flæði á knettinum og á köflum virkilega gott spil, ekki síst fram á við. Með öðrum orðum fannst mér vera hugsun á bak við það sem við vorum að gera og ekkert óðagot. Getum svo sannarlega byggt á þessu. Frábært hjá ykkur stúlkur.

Birgir Jónasson þjálfari.

Álftanes - Stjarnan, stutt umfjöllun um leik í Faxaflóamóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara örfáum orðum um leik okkar við Stjörnuna á laugardag.

Á brattann var að sækja hjá okkur að þessu sinni, eins og við var að búast. Réðum við illa við hápressu Stjörnunnar og framan af náðum upp litlu spili. Af þeim sökum var mikið um feilsendingar. Mér fannst það lagast þegar á leikinn leið og einkum í síðari hálfleik náðum við að ógna marki Stjörnunnar nokkrum sinnum eftir góðan samleik. Náðum við að setja eitt mark í leiknum sem kom úr frábæru langskoti. Þar var Emilía á ferð.

Heilt yfir er ég sæmilega sáttur við frammistöðuna. Það er erfitt að spila við lið eins og Stjörnuna sem hefur á að skipa mörgum frambærilegum stúlkum og maður í raun veit maður aldrei hvaða liði maður er að fara mæta.

Við eigum mikið inni og úrslit leiksins fannst mér ekki gefa rétta mynd af gangi leiksins. Við þurfum að halda áfram stúlkur og reyna bæta okkur. Við getum það en gerist aðeins með markvissum æfingum, vinnusemi og jákvæðu hugarfari. Er alveg sannfærður um að við gerum betur næst.

Birgir Jónasson þjálfari.

Breiðablik - Álftanes, stutt umfjöllun um leik í Faxaflóamóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara örfáum orðum um leik okkar gegn Breiðablik í gær.

Byrjuðum leikinn vel og náðum að skora fyrsta mark leiksins eftir nokkra mínútna leik (Emilía eftir góðan undirbúning frá Berglindi). Blikar voru fljótir að svara og náðu að setja á okkur tvö mörk með skömmu millibili. Eftir það var leikur okkar í fyrri hálfleik ekki nægjanlega góður og við vorum undir í mjög mörgu, þá einkum í návígjum, en Blikar voru einfaldlega mun áræðnari, þrátt fyrir að lítill munur virtist vera á liðunum, getulega.

Lékum betur í síðari hálfleik, einum framan af. Náðum þó ekki að ógna marki Blika neitt sérstaklega en fengum á okkur mörk í staðinn.

Heilt yfir fannst mér við ekki leika nægjanlega vel. Það sem varð okkur að falli var skortur á áræðni og ákveðni og mér fannst hugurinn vera annars staðar. Af þeim sökum bitum við ekki nægjanlega frá okkur og hefðum mátt láta finna meira fyrir okkur, eftir allt harkið undanfarnar vikur í öllum veðrum. Mér fannst við ráða illa við pressu frá markspyrnu og of mörg mörk komu þannig. Nánar tiltekið mættum við ekki knettinum, stóðum með bakið í völlinn, Blikar stigu fram, hirtu hann og hætta skapaðist. Grimmd og þéttleika vantaði við þessar aðstæður. Vert er að hafa í huga að í knattspyrnu er ekki síður mikilvægt hvað leikmaður gerir án knattar, þar sem leikmaður er ca 98% leiktímans án hans. Það sem er hins vegar jávætt er að góðir spilakaflar voru í leiknum og stúlkur hættu ekki að reyna láta hann ganga.  

Er ekki í vafa um að við getum mun betur en í gær og úrslitin gefa á engan hátt til kynna muninn á liðunum.

Við þurfum að snúa við blaðinu og bæta okkar leik. Það gerum við með því að halda áfram og stunda íþróttina af kappi og gefast ekki upp.      

Birgir Jónasson þjálfari.