Breiðablik - Álftanes, stutt umfjöllun um leik í Faxaflóamóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara örfáum orðum um leik okkar gegn Breiðablik í gær.

Byrjuðum leikinn vel og náðum að skora fyrsta mark leiksins eftir nokkra mínútna leik (Emilía eftir góðan undirbúning frá Berglindi). Blikar voru fljótir að svara og náðu að setja á okkur tvö mörk með skömmu millibili. Eftir það var leikur okkar í fyrri hálfleik ekki nægjanlega góður og við vorum undir í mjög mörgu, þá einkum í návígjum, en Blikar voru einfaldlega mun áræðnari, þrátt fyrir að lítill munur virtist vera á liðunum, getulega.

Lékum betur í síðari hálfleik, einum framan af. Náðum þó ekki að ógna marki Blika neitt sérstaklega en fengum á okkur mörk í staðinn.

Heilt yfir fannst mér við ekki leika nægjanlega vel. Það sem varð okkur að falli var skortur á áræðni og ákveðni og mér fannst hugurinn vera annars staðar. Af þeim sökum bitum við ekki nægjanlega frá okkur og hefðum mátt láta finna meira fyrir okkur, eftir allt harkið undanfarnar vikur í öllum veðrum. Mér fannst við ráða illa við pressu frá markspyrnu og of mörg mörk komu þannig. Nánar tiltekið mættum við ekki knettinum, stóðum með bakið í völlinn, Blikar stigu fram, hirtu hann og hætta skapaðist. Grimmd og þéttleika vantaði við þessar aðstæður. Vert er að hafa í huga að í knattspyrnu er ekki síður mikilvægt hvað leikmaður gerir án knattar, þar sem leikmaður er ca 98% leiktímans án hans. Það sem er hins vegar jávætt er að góðir spilakaflar voru í leiknum og stúlkur hættu ekki að reyna láta hann ganga.  

Er ekki í vafa um að við getum mun betur en í gær og úrslitin gefa á engan hátt til kynna muninn á liðunum.

Við þurfum að snúa við blaðinu og bæta okkar leik. Það gerum við með því að halda áfram og stunda íþróttina af kappi og gefast ekki upp.      

Birgir Jónasson þjálfari.