Afturelding/Fram - Álftanes, stutt umfjöllun um leik í Íslandsmóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara örfáum orðum um leikinn við Aftureldingu/Fram.

Byrjuðum leikinn afar vel og skorðum á fyrstu mínútu leiks með hreint frábæru marki þar sem knötturinn gekk frá aftasta til fremsta manns og Emilía náði að skora. Mótherjinn var hins vegar sterkur og við vissum að á brattann yrði að sækja. Það kom á daginn, auk þess sem lítið féll með okkur.

Sýndum góðan leik á köflum en við ofurefli var þó að etja á marga vísu. Vorum undir í návígjum þrátt fyrir að bíta frá okkur á köflum og réðum illa við kraftinn í liði mótherjans sem hafði á að skipa mörgum stúlkum á eldra ári. Við náðum að skapa okkur svolítið af marktækifærum, einkum í fyrri hálfleik, en alltof oft vantaði að reka smiðhöggið í sóknunum þar sem skot okkar hreinlega drifu ekki á markið. Allt kom því fyrir ekki og við töpuðum fyrir sterkari mótherja.

Heilt yfir var frammistaðan nokkuð góð, t.d. var fyrri hálfleikur vel leikinn. Held að þetta hafi verið okkar besti leikur í sumar og framan af leik stóðum við í þeim. Á þeim tíma leiks féllu hlutirnir ekki fyrir okkur og mótherjinn náði að færa sér það í nyt.

Þetta fer í reynslubankann og ekkert annað unnt að gera en að halda áfram. 

Birgir Jónasson þjálfari.