Víkingur R. - Álftanes, stutt endurgjöf um leik hjá B-liði

Sæl, öllsömul.

Stutt endurgjöf um kappleik dagsins hjá B-liði, gegn Víkingi í R.

Stúlkurnar áttu frábæran dag á Víkingsvelli og sýndu allar sínar bestu hliðar. Höfðu þær algjöra yfirburði í leik sem fyrirfram mátti búast við að yrði jafn. Sköpuðu sér urmul marktækifæra frá fyrstu mínútu en voru svolítið lengi að brjóta ísinn. Um leið og fyrsta markið kom, um miðjan fyrri hálfleik, rigndi inn mörkum.

Náðu að setja fjögur í fyrri hálfleik og þrjú í hinum síðari. Mörkin, sem voru í öllum regnbogans litum, gerðu: Bjartey 2, Eva 2, Fríða 2 og Hera 1.

Heilt yfir er ég himinlifandi með frammistöðuna því allar stúlkur voru að leggja sig fram, standa sig vel og leika sinn besta leik. Ekki er hægt að biðja um meira. Virkilega góð pressa á mótherjann og fínir spilakaflar þegar við höfðum knöttinn. Líklega bestu spilakaflar sem sést hafa hjá B-liði, fram til þessa, og augljós hugsun á bak allt sem var verið að gera inni á vellinum. Virkilega gaman að sjá útfærslur stuttra hornspyrna í leiknum. Hárrétt framkvæmd. 

Þetta er gott veganesti fyrir framhaldið en næsti leikur B-liðsins er eftir hálfan mánuð, gegn Þrótti R. Þangað til eru það bara æfingar og aftur æfingar.

Birgir Jónasson þjálfari.