Rey cup, 3. og síðasti dagur, uppgjör

Sæl, öllsömul!

Þá er þriðji og síðasti dagur á Rey cup að baki en hann hófst á því að haldið var að Sóltúni 13 í Reykjavík þar sem beið okkar glæsilegt morgunverðarhlaðborð. Frábært framtak hjá Björgu Önnu, móður Svandísar, og ömmu Svandísar, sem önnuðust þetta.

Svo var komið að stóru stundinni, úrslitaleik gegn danska liðinu Nykøbing FC. Um hörkuleik var að ræða og voru hinar dönsku staðráðnar í að láta ekki kjöldraga sig á ný. Um taktískan leik var að ræða þar sem hinar dönsku vörðust og beittu skyndisóknum. Léku þær afar grófan leik og lítt áferðarfagra knattspyrnu. Okkar stúlkur áttu erfitt uppdráttar, einkum í fyrri hálfleik. Náðu hinar dönsku að skora snemma leiks og þar við sat í fyrri hálfleik. Náðu okkar stúlkur ekki að skapa sér nægjanlega góð marktækifæri til þess að jafna metin. Stóð því 1-0 í leikhléi, hinum dönsku í vil. 

Síðari hálfleikur var í járnum þar sem okkar stúlkur stjórnuðu leiknum en náðu ekki skapa sér nægjanlega góð marktækifæri en hinar dönsku voru mjög grimmar í sínum varnarleik og gáfu okkar stúlkum ekkert rými. Vantaði iðulega upp á síðustu sendingu hjá okkar stúlkum til þess að gera fært sér spilalega yfirburði í nyt. Gegn gangi leiksins náðu hinar dönsku að skora 10 mínútum fyrir leikslok. Okkar stúlkur svöruðu því með því að minnka muninn en þar var Eva á ferð með gott mark eftir góða sókn þar sem breidd vallarins var nýtt til hins ýtrasta. Mikil pressa var á mark Nykøbing FC síðustu mínútur leiksins en inn vildi knötturinn ekki. Það voru því hinar dönsku sem fóru með sigur af hólmi, 2-1, og óskum við þeim til lukku með það.

Að leik loknum var svo haldi0ð á verðlaunaafhendingu og tekið á móti silfurverðlaunum. Lauk svo mótinu formlega að lokinni þeirri athöfn.

Heilt yfir er ég mjög ánægður með frammistöðu stúlknanna í mótinu og augljóst er að þær eru í sókn, t.d. frá því að þær léku á Íslandsmóti í byrjun sumars. Mikilvægt er að hafa í huga að það að sigra er ekki markmið í knattspyrnu yngri flokka heldur frammistaða. Fyrst frammistaða, svo úrslit! Stundum er sagt að það sé betra að leika vel og tapa en að leika illa og vinna. Í því er fólgið talsvert sannleikskorn sem unnt er að heimfæra á þetta mót, sé aðeins horft til þess hvernig skipaðist í sæti. Að mínu mati léku okkar stúlkur best í mótinu af þeim liðum sem tóku þátt, þrátt fyrir að hafa ekki unnið. 

Það verður svo frí á æfingu á morgun, mánudag, en stúlkurnar eiga svo að mæta á þriðjudag á hefðbundnum tíma. Um næstu helgi er svo verslunarmannahelgi og þá verður frí frá æfingu á mánudag. Svo hefst undirbúningur fyrir Íslandsmótið 16. ágúst en mjög mikilvægt er að stúlkur æfi vel fram að þeim tíma en ráðgert er að leika a.m.k. einn æfingaleik fram að því, og þá við öflugan mótherja.

Birgir þjálfari.