Rey cup, 2. dagur, úrslit og umfjöllun

Sæl, öllsömul!

Álftanes lék tvo leiki á Rey cup í dag, laugardag, en það voru síðustu lokaleikir liðsins í riðlakeppni mótsins. Úrslit urðu sem hér segir (nöfn markaskorara innan sviga):

Álftanes – Þróttur: 7-0 (Ída María 3, Salka 2, Eva 1, Sylvía 1)
Álftanes – Nykøbing FC: 5-0 (Ída María 4, Eva 1)

Í fyrri leik mótsins var um fádæma yfirburði að ræða gegn Þrótti en leikurinn var mjög vel leikinn af hálfu okkar stúlkna. Þess ber að geta að Þróttarstúlkur léku m.a. einum fleiri í síðari hálfleik en það skipti litlu máli, svo mikið bar á milli. Jafnvægið í leik liðsins var mjög gott og á köflum sáust frábærir spilakaflar enda sá dómari leiksins, af bresku bergi brotinn, ástæðu til þess að hrósa liði Álftaness fyrir léttleika (það hafði reyndar annar dómari einnig gert í gær).  

Í síðari mótsleiknum var leikið gegn danska liðinu Nykøbing FC. Fyrirfram var búist við hörkuleik en lið þessi höfðu, þegar hér var komið sögu, bæði unnið alla sína leiki í mótinu með yfirburðum og voru jöfn að stigum. Álftaness stúlkur voru hins vegar mun betri allt frá fyrstu mínútu og yfirspiluðu danska liðið. Var ekki spurning hvar léttleikinn var en stundum hefur verið sagt um danska knattspyrnumenn að þeir séu Brasilíumenn Norðurlandanna. Ef svo er, voru okkar stúlkur Þjóðverjar Norðurlandanna en lyktir leiks urðu 5-0, okkar stúlkum í vil og var sá sigur síst of stór. Áttu allar stúlkur sinn besta dag og léku framúrskarandi.

Heilt yfir er ég mjög sáttur við frammistöðu stúlknanna í dag sem sýndu sparihliðarnar og hefði ekki verið unnt að biðja um meira. Úrslit þessi þýða að Álftaness mun leika til úrslita á morgun, sunnudag, þar sem att verður kappi á ný við danska liðið Nykøbing FC. Þá telur leikurinn í dag ekki og þurfa stúlkur því að mæta einbeittar til leiks og ekki vanmeta dönsku stallsysturnar sem kunna ýmislegt fyrir sér, eru líkamlega sterkar og harðar í horn að taka.

Birgir þjálfari.