Rey cup, 1. dagur, úrslit og umfjöllun

Sæl, öllsömul!

Álftanes lék þrjá leiki á Rey cup í dag, hinir tveir fyrri voru í mótinu en sá þriðji æfingaleikur. Úrslit urðu sem hér segir (nöfn markaskorara innan sviga):

Mótsleikir
Álftanes – Fjarðabyggð: 11-1 (Ída María 4, Salka 3, Eva 2, Anna Bríet 1, Selma 1)
Álftanes - Ringvasoy IL: 6-0 (Ída María 3, Anna Bríet 1, Salka 1, Selma 1)

Æfingaleikur
Álftanes – Fjarðabyggð: 0-0

Í fyrsta leik mótsins var um algjöra yfirburði að ræða gegn Fjarðabyggð en fyrri hálfleikur var einkar vel leikinn þar sem knötturinn gekk stúlkna á milli í fáum snertingum. Stóð 8-0 í leikhléi. Síðari hálfleikur var ekki nærri eins góður en þá fóru stúlkur að nota fleiri snertingar og mjög hægðist á leiknum. Þá náðu okkar stúlkur ekki að vinna nægjanlega vel úr stöðunni þrjár gegn tveimur sóknarlega en sú staða kom ítrekað upp í leiknum. Þá slitnaði leikur liðsins allmikið í sundur í síðari hálfleik.

Í síðari mótsleiknum var leikið gegn norska liðinu Ringvasoy IL. Um algjöra yfirburði var einnig að ræða í þeim leik, þar sem okkar stúlkur sóttu allan leikinn og norsku stúlkurnar áttu því sem næst ekki skot á mark. Mjög góðir spilakaflar sáust í leiknum og allmikið öryggi var í leik liðsins og gott flæði. Mörk Álftaness hefðu hæglega getað orðið mun fleiri en lyktir urðu 6-0 fyrir Álftanesi en 2-0 stóð í leikhléi.

Síðasti leikur dagsins var æfingaleikur gegn Fjarðabyggð en þann leik léku fjórar stúlkur í 5. flokki og þær stúlkur sem minnst léku í dag. Þá lék Svandís markvörður sem útileikmaður. Skemmst er frá að segja að um spennandi leik var að ræða þar sem okkar stúlkur höfðu yfirhöndina en inn vildi knötturinn ekki. Markalaust jafntefli var því niðurstaðan. Heilt yfir var leikurinn vel spilaður og útfærður af hálfu okkar stúlkna.  

Heilt yfir er ég mjög sáttur við frammistöðu stúlknanna í dag sem sýndu mörg skemmtilega tilþrif. Helst fannst mér leikur liðsins detta svolítið niður í síðari hálfleik gegn Fjarðabyggð og þar hefði ég viljað sjá meiri leikgleði og ákefð. Þetta er gott vegnesti fyrir stúlkurnar sem geta verði stoltar af sinni frammistöðu.  

Spennandi dagur framundan á morgun, fyrst gegn Þrótti og síðan gegn danska liðinu Nykøbing FC.

Birgir þjálfari.