HK - Álftanes: 2-1

Sæl, öllsömul!

Ég ætla þá að fara örfáum orðum um æfingaleik HK og Álftaness sem fram fór í síðustu viku. Um var að ræða æfingaleik þar sem leikin var 11 manna knattspyrna. Fór leikur þessi fram á gervigrasvelli HK í Fagralundi við mjög góðar aðstæður.

Um hörkuleik var að ræða þar sem HK stúlkur voru ívið sterkara liðið en þess ber að geta að þær leika sem A-lið í Íslandsmóti í B-riðli og eru því vanar að leika 11 manna knattspyrnu en, eins og flestir vita, verður hið sama ekki sagt um okkar stúlkur sem hafa litla reynslu af þess háttar knattspyrnu. Framan af einkenndist leikurinn af barningi inni á miðju vallarins þar sem barist var um knöttinn á mjög litlu svæði. Um hálfgert hnoð var að ræða. Var því ekki mikið um áferðafallega knattspyrnu í fyrri hálfleik en ekkert mark var skorað í honum.

Síðari hálfleikur var mun betur leikinn af hálfu beggja liða og mun meira var um samleik. Um miðjan hálfleikinn náðu HK stúlkur að skora fyrsta mark leiksins en þá höfðu þær a.m.k. átt tvö skot í markslá okkar marks og höfðu sótt mun meira. Nokkuð gegn gangi leiksins náðu okkar stúlkur að jafna metin en þar var Birta á ferð með mjög gott mark af stuttu færi eftir undirbúning frá Silvíu og Selmu. Í lok leiks náði HK að skora sigurmark leiksins með góðu marki og þar við sat, þrátt fyrir að síðasta marktækifæri leiksins hefðu okkar stúlkur átt. Lyktir leiksins urðu því 2-1, HK í vil, sem verða að teljast mjög sanngjörn útslit.

Heilt yfir var ég ánægður með leik okkar stúlkna, einkum í síðari hálfleik. Náðust ágætir spilakaflar þar og stúlkurnar lögðu sig allar fram og vörðust vel. Taka þarf mið af því að leikið var við A-lið í 11 manna knattspyrnu sem er vant því að leika leiki af því tagi og það skiptir miklu. Ágætur leikur og góð reynsla fyrir okkar stúlkur.

Birgir þjálfari.