Smábæjarleikarnir - stutt umfjöllun

Sæl, öllsömul!

Ég ætla þá að fara nokkrum orðum um Smábæjarleikana á Blönduósi sem fram fóru um helgina. Mótið var vel heppnað og umgjörð almennt til fyrirmyndar. Ekki spillti frábært veður fyrir, einkum síðari daginn.

Álftanes tefldi fram tveimur liðum hjá 4. flokki stúlkna, Álftanesi 1 og 2, en leikin var sjö manna knattspyrna. Keppni fór fram í einum riðli en alls mættu fjögur lið til keppni frá tveimur félögum, þ.e. frá Álftanesi og sameiginlegu liði Hvatar/Fram. Leikin var tvöföld umferð og lék því hvort lið alls sex leiki sem er hæfilegt.

Skipting var þannig að í liði Álftaness 1 léku stúlkur á eldra ári í 4. flokki og í 5. aldursflokki en í liði Álftaness 2 léku stúlkur á yngra ári í 4. flokki. Sú breyting varð þó á í síðustu leikjum mótsins að þar var um að ræða styrkleikaröðun hjá Álftanesi og Hvöt/Fram en það var gert í því skyni að koma í veg fyrir innbyrðisviðureignir liða frá sama félagi sem er afar hvimleitt á mótum sem þessum.

Úrslit hjá liðum Álftaness urðu eftirfarandi (upplýsingar um markaskorara innan sviga):

Laugardagur, lið 1 og 2
Álftanes 1 – Hvöt/Fram 1: 3-0 (Ída María 2, Katrín 1).
Álftanes 1 – Hvöt/Fram 2: 4-0 (Ída María 3, Guðný 1).
Álftanes 1 – Álftanes 2: 0-1 (Eva).

Álftanes 2 – Hvöt/Fram 2: 4-0 (Eva 2, Selma 1, Sylvía 1).
Álftanes 2 – Hvöt/Fram 1: 2-0 (Eva 1, Freyja 1).
Álftanes 2 – Álftanes 1: 1-0 (Eva).

Sunnudagur, lið 1 og 2
Álftanes 1 – Hvöt/Fram 1: 5-0 (Ída María 3, Birta 1, Katrín 1).
Álftanes 1 – Hvöt/Fram 2: 3-1 (Ída María 1, Katrín 1).

Álftanes 2 – Hvöt/Fram 2: 1-0 (Sylvía).
Álftanes 2 – Hvöt/Fram 1: 5-1 (Selma 2, Eva 1, Freyja 1, Sylvía 1).

Sunnudagur, lið A og B
Álftanes B – Hvöt/Fram B: 7-0 (Silja 2, Birta 1, Freyja 1, Katrín 1, Selma 1, Þórhildur 1 (hennar fyrsta mark á ferlinum, til hamingju Þórhildur).

Álftanes A – Hvöt/Fram A: 8-0 (Salka 3, Aníta 2, Ída María 2, Eva 1).

Úrslit þessi tryggðu liði Álftaness öruggan sigur á mótinu en í reynd var um fádæma yfirburði að ræða hjá Álftanesi gagnvart liði Hvatar/Fram. Um erfitt mót var því að ræða hjá hinum síðarnefndu. Þær fá þó hrós fyrir að halda ótrauðar áfram og gefast ekki upp.

Heilt yfir er ég afar ánægður með frammistöðu stúlknanna sem léku á köflum hreint frábærlega og unun var að fylgjast með þeim, ekki síst í síðustu tveimur leikjum mótsins, sem að mínu mati voru þeir bestu. Gildir það um bæði lið. Grunnatriði voru í mjög góðu lagi, s.s. móttaka knattar, sendingar, samvinna tveggja manna (einkum sóknarlega), skipulag varnar og sóknaruppbygging. Þá var mörgum sóknum lokið með markskoti sem er afar gott. Í dæmaskyni vil ég nefna að í síðasta leik mótsins, þar sem A-lið félaganna mættust, leikgreindi ég lið Álftaness í fyrri hálfleik með heppnaðar og misheppnaðar sendingar. Niðurstaðan var mjög viðunandi, eða 27 heppnaðar sendingar gegn 14 misheppnuðum en leikurinn var í járnum framan af og leikmenn fengu ekki lagnan tíma með knöttinn. 

Ég vil svo þakka öllum fyrir frábært mót og prýðilegt samstarf.

Foreldrar/forráðamenn fá hrós fyrir að fjölmenna á mótið en afar ánægjulegt var að upplifa stuðninginn og samstöðuna. Að lokum fær Guðbjörn Harðarson sérstakt hrós fyrir óeigingjarnt starf í þágu félagsins.

Birgir þjálfari.