Smábæjarleikarnir á Blönduósi, hagnýtar upplýsingar

Sæl, öllsömul!

Hér koma nokkrar hagnýtar upplýsingar fyrir Smábæjarleikana á Blönduósi sem fram fara 21. og 22. júní nk. Að öðru leyti skal vísað til heimasíðu mótsins sem er að finna undir slóðinni: http://www.hvotfc.is/index.php?pid=238. Þar eiga allar helstu upplýsingar að vera um mótið. Athygli er þó vakin á því að „leikjaplan“ liggur ekki fyrir og mun það, af fenginni reynslu, væntanlega ekki liggja fyrir fyrr en síðari hluta dags á föstudag.

Iðkendur, þjálfarar og eftir atvikum foreldrar/forráðamenn munu gista saman á þeim stað sem þeim verður úthlutaður til gistingar af mótshaldara en þegar þessi orð eru rituð liggur ekki fyrir hver sá staður verður. Athygli er vakin á því að ráðgert er að móðir/mæður muni gista hjá stúlkunum en tvær mæður hafa boðið sig fram til þess starfa (Thelma, móðir Ídu Maríu, og Hlín, móðir Sylvíu).

Ráðgert er að Álftanes tefli fram tveimur liðum hjá 4. flokki stúlkna í mótinu. Gerð verður sérstaklega grein fyrir liðsskipan þegar á mótstað er komið. Á þessari stundu stefnir í að 19 stúlkur muni taka þátt, þar af fjórar stúlkur úr 5. flokki. Svandís mun líklega leika í marki hjá báðum liðum, ef hún treystir sér til, nema þegar liðin leika samtímis eða innbyrðis, þá þarf einhver að hlaupa í skarðið hjá öðru hvoru liðinu. Á þessari stundu liggur þó ekki fyrir samþykki mótstjórnar fyrir þessari skipan en vonandi fæst það.

Iðkendur þurfa sjálfir að koma sér á leikstað og þurfa að vera komnir á Blönduós eigi síðar en kl. 22 á föstudag (20. júní) eða kl. 8 á laugardag (21. júní). Við það tilefni verður armböndum úthlutað. Þjálfari og aðstoðarmaður hans, Guðbjörn Harðarson, munu sjálfir koma á svæðið rétt fyrir kl. 22 á föstudag. Foreldrar/forráðamenn eru hvattir til að skipuleggja sig innbyrðis og eftir atvikum í samráði við þjálfara svo tryggja megi að allir komist á áfangastað. Á þessari stundu er mér kunnugt um að Elsu vanti far á Blönduós. Bið ég fólk um að bregðast við því. Að öðrum kosti getur hún fengið far hjá mér.

Samkvæmt venju leggur þjálfari á það áherslu að iðkendur neyti hollrar fæðu meðan á móti stendur. Af því leiðir að gos, sælgæti og annað fæði af slíkum toga verður bannað meðan á keppni stendur, nema um verði að ræða einhverjar uppákomur í tengslum við mót. Þjálfari leggur á það áherslu iðkendur hvílist vel og verði lagstir til hvílu eigi síðar en kl. 23 (í ró í hálfri klukkustund fyrr) og komnir á fætur eigi síðar en kl. 7:30 árdegis (veltur það á því hvenær leikið er).

Þá leggur þjálfari áherslu á að iðkendur sýni prúðmennsku og háttvísi, jafnt innan sem utan vallar. Strangt verður tekið á öllum agabrotum og uppákomum, sem ekki þykja við hæfi á íþróttamóti. Athygli er vakin á því að heimilt verður að hafa GSM-farsíma og iPod með í för. Bækur í för sem þessa eru enn fremur góður kostur en venju samkvæmt ráðgerir þjálfari að hafa bók/bækur um íþróttatengt efni með í för og stefnt verður á húslestur fyrir svefn.

Þátttökugjald fyrir hvern iðkanda 8.500 krónur, auk staðfestingargjalds sem er 10.000 krónur á lið og skiptist jafnt niður. Mótsgjald verður greitt úr sameiginlegum sjóði flokksins, sem allir eiga fyrir, en þeir iðkendur sem ekki eiga hlutdeild í sjóðnum munu eftir atvikum þurfa að gera upp við sjóðinn eins fljótt og kostur er og í síðasta lagi um mánaðamót. Mun ég ræða við hlutaðeigandi um það.

Innifalið í þátttökugjaldi er fæði fyrir hvern iðkanda, ef undan er skilin kvöldhressing á föstudag og önnur hressing á laugardag og sunnudag. Iðkendur þurfa að koma með nesti fyrir föstudaginn en fyrir laugardag og sunnudag er ráðgert að kaupa nesti fyrir iðkendur í matvörubúð staðarins sem gefið verður. Greitt verður einnig fyrir það úr sameiginlegum sjóði flokksins. Af þessu leiðir að ekki er gert ráð fyrir að iðkendur þurfi að hafa peninga meðferðis en þó verður heimilt að hafa hámarki 2.000 krónur, ef eitthvað kemur upp.

Mælst er til að iðkendur mæti í fatnaði merktum Álftanesi og klæðist honum meðan á móti stendur eða a.m.k. á keppnissvæði. Þá þurfa iðkendur að hafa meðferðis keppnisskyrtu. Loks er mælst til þess að iðkendur hafi meðferðis bláar stuttbuxur og bláa sokka.

Athygli skal vakin á því að iðkendur þurfa enn fremur að hafa meðferðis eftirfarandi búnað:

*Allan búnað til knattspyrnuiðkunar.
*Sundföt og handklæði (tvö til þrjú stk.).
*Dýnu, kodda og sængurföt (lak og sæng eða svefnpoki), auk teppis undir dýnu.
*Föt til skiptanna (s.s. buxur, sokkar og nærbuxur).
*Skó til skiptanna (þ. á m. inniskó).
*Hreinlætisvörur (s.s. sjampó, tannbursta, tannkrem).
*Vatnsbrúsa.

Vonandi munum við svo eiga skemmtilega og eftirminnilega helgi fyrir höndum.

Ef eitthvað er óljóst vil ég hvetja ykkur til þess að hafa samband.

Birgir þjálfari.