Fram búið að gefa leikinn

Sælar, stúlkur!

Fram er búið að gefa leikinn sem vera átti í kvöld. Úrslit leiks verða því skráð 3-0, Álftanesi í vil.

Æfing frá kl. 20 í kvöld þar sem við munum fara yfir stöðuna. 

Birgir Jónasson þjálfari.

Álftanes - Keflavík: 0-0, stutt umfjöllun

Sælar, stúlkur!

Ég ætla þá að fara nokkrum orðum um leikinn við Keflavík í gær, föstudag. Leikurinn þróaðist nokkurn veginn eins við mátti búast (alltént úti á vellinum) og segja má að þarna hafi stálin stinn mæst; mikil stöðubarátta og lítið um opin marktækifæri. Lið Álftaness var þó mun meira með knöttinn og stjórnaði leiknum nær allan tímann.

Færin létu nokkuð á sér standa og þeir möguleikar sem voru í stöðunni nýttust ekki. Lunginn af fyrri hálfleik fór fram á miðju vallarins og á vallarhelmingi Keflavíkur. Nokkuð einkennandi var að sóknaruppbygging hófst frá öftustu línu, í gegnum miðjuna, sem hvoru tveggja gekk vel, en þegar kom upp á síðasta þriðjung eða fjórðung vallar voru Keflavíkurstúlkur mjög þéttar fyrir og gáfu fá færi á sér.

Í síðari hálfleik var sama uppi á teningnum en þó voru fleiri möguleikar og betri færi og sóknarmöguleikar sköpuðust. Þá fengu Keflavíkurstúlkur a.m.k. tvö góð marktækifæri í síðar hálfleik eftir skyndisóknarleik. Úrslit leiksins, 0-0, eru nokkur vonbrigði og fremur rýr uppskera miðað við gang leiksins. Svona er hins vegar knattspyrnan.  

Heilt yfir er ég nokkuð ánægður með margt í leik liðsins, t.a.m. sóknaruppbyggingu og hvernig leikmenn náðu að láta knöttinn ganga á ákveðnum stöðum á leikvellinum. Þá fannst mér ágætis yfirvegun vera í leik liðsins. Nokkur vandræðagangur var þegar nær dró marki mótherjanna og vantaði svolítið bit í sóknarlotur. Með öðrum orðum vantaði einfaldlega meiri dýpt í sóknarleikinn.  

Birgir Jónasson þjálfari.

Leikur í Lengjubikar á mánudag

Sælar, stúlkur!

Næsti leikur í Lengjubikar KSÍ er gegn Fram á mánudag, kl. 20:15, en leikið verður í Úlfarsárdal. Um margfrestaðan leik er að ræða.

Stúlkur þurfa að vera mættar á leikstað umræddan dag um kl. 19 með allan búnað meðferðis. Leikið verður í varabúningum að þessu sinni og því þurfa stúlkur ekki að hafa meðferðis. Bið þó stúlkur um að hafa stuttbuxur meðferðis.

Allar stúlkur, sem skráðar eru í Álftanes og æft hafa að undanförnu, eru boðaðar. Bið stúlkur um að boða í forföll með eins góðum fyrirvara og unnt er, það auðveldar skipulagningu.

Loks vil ég biðja stúlkur um að vanda sig í undirbúningi fyrir umræddan leik og slaka á um helgina. Hvet ég stúlkur til þess að fara í 20 mínútna göngutúr á morgun, sunnudag. Gott ráð er að eyða nokkrum mínútum í að fara yfir síðasta kappleik í huganum og eyða aðeins lengri tíma í að sjá fyrir sér komandi kappleik í huganum, þar sem allar hugsanir eru jákvæðar.

Birgir Jónasson þjálfari.

Leikur í Lengjubikar KSÍ á morgun, föstudag

Sælar, stúlkur!

Leikið verður í Lengjubikar KSÍ á morgun, föstudag, þegar att verður kappi við Keflavík. Leikið verður á Samsung-vellinum í Garðabæ og hefst leikurinn kl. 20:30.

Stúlkur þurfa að vera mættar á leikstað um kl. 19:15. Sjálfur mun ég koma á svæðið um kl. 19:30. Stúlkur þurfa að hafa allan búnað tiltækan, þ. á m. keppnisskyrtur.

Allar stúlkur, sem skráðar eru í Álftanes og æft hafa að undanförnu, eru boðaðar.

Birgir Jónasson þjálfari.