Dagskrá vikunnar, 10.-12. apríl

Sælar, stúlkur. 

Dagskrá vikunnar verður eftirfarandi: 

Mánudagur, kl. 18-19:30, æfing (gervigras og lyftingasalur).
Þriðjudagur, kl. 18-19:30, æfing (gervigras).

Hugmyndin er svo að vera með mátunardag á mánudag eða þriðjudag, þ.e. mátun nýrra keppnisbúninga, upphitunargalla og æfingagalla. Ef þetta næst ekki, þá strax eftir páska. 

Mun svo íhuga að bæta við æfingu á miðvikudag. Þurfum að ræða það. Hugmyndin er að hvíla um páska og æfa á ný þriðjudaginn eftir páska. Þurfum einnig að ræða það. Margt að ræða!  

Birgir Jónasson þjálfari. 

Álftanes - Sindri, stutt umfjöllun

Sælar, stúlkur.

Stutt endurgjöf í framhaldi af leiknum við Sindra í dag. 

Í stuttu máli þróaðist þetta eins og við reiknuðum með - við sóttum og Sindri varðist. Lékum vel í fyrri hálfleik en vorum klaufar að skora aðeins fjögur mörk. Í síðari hálfleik létum við e.t.v. ekki eins vel úti á vellinum (eðlilega, sökum vinds) en nýttum marktækifærin mun betur og gerðum sjö mörk, en fengum þó líklega ekki eins góð færi og í fyrri hálfleik. Sindri var aldrei nálægt því að skora í leiknum. 

Heilt yfir er ég mjög ánægður með frammistöðuna og taktík okkar. Framherjar okkur voru t.d. hreyfanlegir, góð ógnun kom frá miðvallarleikmönnum og bakverðir náðu góðri dýpt í sínum leik. Uppspil miðvarða var einnig markvisst og öruggt. Þá var hugsun að baki því sem vorum að gera og það var kraftur í okkur varnarlega og við náðum nálega alltaf að setja pressu á leikmanninn með knöttinn. Sindri náði engu spili og í raun var þetta leikur kattarins að músinni. 

Mörk okkar gerðu Oddný 5, Erna 3, Ragna 2 og Sunna 1. Mörkin komu í öllum regnbogans litum, flest eftir uppspil, og það komu mörk úr erfiðum stöðum, eitthvað sem við höfum ekki séð nokkuð lengi. Mjög áhugavert að bera þennan leik t.d. saman við leik gegn Hvíta riddaranum á dögunum en að mínu mati er um áþekk lið að ræða.

Leikurinn var tekinn upp og er hugmyndin að greina hann og vinna úr honum ýmsar upplýsingar og kynna fyrir ykkur. 

Birgir Jónasson þjálfari.

Knattspyrna frá mismunandi sjónarhornum

Sælar, stúlkur.

Langaði að vekja athygli ykkar á mismunandi sjónarhorni manna á knattspyrnuleiki með eftirfarandi tveimur myndskeiðum úr einum og sama leiknum. Um ræðir sögufrægan leik og að mínu mati eina allra bestu frammistöðu annars liðsins sem sést hefur, fram til þessa. Myndband þetta hefur birst áður hér inni á heimasíðunni en sjaldan er góð vísa of oft kveðin!

Í fyrra sýnishorninu eru hápunktar leiksins en í hinu síðara er verið að horfa á ákveðna þætti í leik annars liðsins. Sjálfur finnst mér síðara myndskeiðið eiginlega betra sjónarhorn á gæðin. Það verður spennandi að heyra ykkar skoðanir á því.

https://www.youtube.com/watch?v=911ufp_8LdY.

https://www.youtube.com/watch?v=M7INnQGoBkE

Birgir Jónasson þjálfari.

Leikur gegn Sindra í Lengjubikar, tilhögun

Sælar, stúlkur. 

Á morgun, laugardag, leikum við gegn Sindra í Lengjubikar. Hefjast leikar kl. 16 á Bessastaðavelli. 

Stúlkur sem skráðar eru í Álftanes eru boðaðar. Þær þurfa að vera mættar á leikstað kl. 14:30, með allan tiltækan búnað meðferðis. 

Birgir Jónasson þjálfari.