Þróttur - Álftanes, stutt umfjöllun um æfingaleik

Sælar, stúlkur.

Ætla að fjalla stuttlega um æfingaleikinn við Þrótt. Það sem skyggði á annars ágætan leik af okkar hálfu var að Bára meiddist illa og hlaut slæmt beinbrot. Við óskum henni góðs bata en það er mín sannfæring að hún nái honum fyrr en síðar og komist aftur á fullt. Brýnt er að Bára verði áfram hluti af okkar liði og ég vil hvetja stúlkur til þess að stuðla að því að svo verði.

Leikur okkar var kaflaskiptur en Þróttur byrjaði leikinn betur án þess að ná að skapa sér mikið. Við náðum að vera nokkuð þéttar til baka og þegar á leikinn leið náðum við góðum þéttleika í varnarleik okkar og mér fannst samvinna varnarlína góð. Þá náðum við að sækja á nokkuð mörgum mönnum, mun fleiri en oft áður og ógn stafaði frá okkar bakvörðum, bæði í fyrri og síðari hálfleik. Sóknarframlag þeirra skiptir miklu og það sást. Á köflum fannst mér við mega halda knettinum betur innan liðs og vera aðeins þolinmóðari, einkum þegar við unnum knöttinn.

Við skutum talsvert á markið í leiknum og meira en oft áður. Það finnst mér vera jákvætt. Við gerðum tvö góð mörk (Oddný og Erna) en því miður dugði það ekki til sigurs. Mörkin komu í raun bæði eftir góða liðssamvinnu og frábært einstaklingsframtak.

Heilt yfir er ég ánægður með frammistöðuna. Við lékum með útleikmann (Eydísi Líf) í marki. Hún stóð sig hins vegar vel og við þökkum henni fyrir að bjóða sig fram í verkefnið.

Við þurfum að halda áfram á bæta leik okkar og æfa vel. Mér fannst of fámennt á æfingu í gær (forföll alltof mikil) og af þeim sökum hefði ákefð mátt vera mun meiri, þrátt fyrir slæmt veður og að um endurheimt hafi verið að ræða. Mér leið svolítið eins og að æfingin í gær hafi verið hálfgerð kvöð og það finnst mér ekki góð tilfinning.

Vek athygli á að næsta æfing er á sunnudag skv. dagskrá. Þá leikum við æfingaleik við Hvíta riddarann á mánudag kl. 18:30.

Birgir Jónasson þjálfari.