Álftanes í 1.deild

karfa mynd mfl ka
Strákarnir í meistaraflokki í körfubolta tryggðu sér sæti í fyrstu deild á næsta tímabili, með frækinni framgöngu í úrslitakeppni 2. deildar. Þeir lögðu lið Íþróttafélags Breiðholts í úrslitaleik um laust sæti í deildinni á föstudagskvöld en töpuðu naumlega gegn ÍG í úrslitum deildarinnar – í leik sem skipti í raun engu máli því bæði liðin voru komin upp.

Leikurinn gegn ÍB var háspennuleikur, svona rétt eins og allir leikir Álftnesinga hafa verið að undanförnu. Álftnesingar höfðu yfirhöndina nánast allan leikinn.

Rétt undir lokin náðu Breiðhyltingar þó forystunni með magnaðari svæðisvörn, sem sló Álftnesinga útaf laginu. Breiðhyltingar komust í fyrsta sinn yfir þegar um ein og hálf mínúta voru eftir af leiknum.

Jón Ólafur Magnússon jafnaði leikinn 79-79 þegar um 40 sekúndur voru eftir. Breiðhyltingar komust á vítalínuna og skoruðu úr öðru vítinu – og voru yfir 80 – 79 og lítið eftir. Álftnesingar misstu boltann útaf þegar 14 sekúndur voru eftir. Breiðhyltingar því með pálmann í höndunum.

Kjartan Atli Kjartansson náði að stela boltanum með því að komast inn í innkast ÍB-manna. Hann gabbaði varnarmenn upp í loftið og sótti svo villu. Fór á vítalínuna og setti bæði vítaskotin ofan í. Þar með var leiknum snúið. Breiðhyltingar fóru í sókn en náðu ekki að skora – Jón Ólafur náði einhvern veginn að handama knöttinn. Á honum var brotið og hann fór á vítalínuna. Að sjálfsögðu setti ungstirni Álftnesinga bæði vítin ofan í og tryggði hann sínu liði sigurinn 83-80.

Helsta tölfræði í leiknum: Jón Ólafur 21 stig, Kjartan Atli 20 stig (7 fráköst og 6 stoðsendingar), Arnar Hólm 16 stig (5 fráköst), Birkir 14 stig (5 fráköst), Daði 6 stig (8 fráköst), Sigurbörn 4 stig (5 fráköst), Anton 3 stig.

Úrslitaleikurinn gegn Íþróttafélagi Grindavíkur (ÍG) var haldinn á laugardeginum. Sá leikur skipti engu máli, liðin voru bæði komin upp. Þó langaði báðum liðum í bikarinn – eða í það minnsta að ljúka tímabilinu með sæmd.

Grindvíkingar eru vel mannaðir – með hávaxna stráka og fransk/ameríska bakvörðinn Hamid Dicko sem lék með Valsmönnum í úrvalsdeild fyrir tveimur árum.

Síðast þegar liðin léku voru ÍG-menn mun sterkari og unnu leikinn með um 20 stiga mun. Var það eina tap Álftnesinga síðan á síðasta ári.

En Álftnesingar mættu grimmir í þennan leik og voru með 12 stiga forystu í hálfleik. Grindvíkingar náðu hægt og rólega að snúa leiknum sér í hag og verður að viðurkennast að þeir fengu nokkur vafaatriði með sér frá annars góðum dómurum leiksins.

ÍG-menn enduðu með því að stela forystunni á lokametrunum – Álftnesingar sprungu eiginlega á limminu. Hæst bar líklega skotsýning Kjartans í seinni hálfleik. Hann setti 32 stig í hálfleiknum, þar af sjö þriggjastiga körfur, þrátt fyrir að vera í strangri gæslu. Hann endaði með 38 stig. Jón Ólafur hélt liðinu á floti í fyrri hálfleik og Anton, Daði, Arnar og Sigurbjörn léku stórkostlega vörn.

Tímabilinu lokið og Álftnesingar komnir upp í fyrstu deild. Þar mæta þeir sterkum liðum á borð við Val, KFÍ, Breiðablik og Hamar. Næsta tímabil verður mjög fróðlegt og skemmtilegt. Frábær árangur hjá strákunum.