Álftanes - Þróttur Vogum, æfingaleikur, stutt umfjöllun

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara örfáum orðum um æfingaleikinn í gær við Þrótt Vogum.

Byrjuðum þetta ljómandi vel og vorum mun betra liðið. Fljótlega fjölgaði Þróttur um leikmann og lék einum og tveimur fleiri lungann af leiknum. Við það jafnaðist leikurinn og kannski rúmlega það, einkum í síðari hálfleik.

Í fyrri hálfleik var þetta aldrei spurning og lipur tilþrif sáust. Stóð 5-1 í leikhléi, sem þó voru alltof stórar tölur að mínu mati. Annað var uppi á teningnum í síðari hálfleik þar sem jafnræði var með liðum. Urðu lyktir 6-5, okkur í vil. Mörk okkar gerðu Valur (5) og Gunnar (1), að ég held.

Heilt yfir fannst mér frammistaðan sæmileg. Við lögðum leikinn upp þannig að leika með tvær snertingar á eigin vallarhelmingi með hröðu uppspili, að nota tvær snertingar þegar knötturinn ynnist til að sækja hratt og leika með tvær varnarlínur. Ekkert af þessu fannst mér heppnast vel, í hvorugum hálfleik, og heilt yfir notuðu drengir alltof margar snertingar, of lítil hreyfing var án knattar og of lítið flæði var á knettinum.

Drengir í 5. flokki stóðu sig vel en verkefnið var þeim erfitt þar sem stærðar- og styrktarmunur var á liðunum, Þrótti í vil. Heilt yfir fannst mér við of ragir og létum Þrótt „klukka okkur“, þ.e. þar sem við notuðum of margar snertingar vorum við í alltof miklum návígjum úti á vellinum í stað þess að reyna að láta þá elta okkur. Styrkleikar þeirra nýttust því mun betur en okkar.  

Við eigum svolítið í land þegar mótherjinn er sterkur líkamlega. Þurfum að halda áfram og verða betur í stakk búnir að nýta okkar styrkleika í leikjum sem þessum.

Birgir Jónasson þjálfari.