Álftanes - Grindavík, stutt umfjöllun um leik í Faxaflóamóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fjalla í örfáum orðum um leikinn við Grindavík í dag.

Um hörkuleik var að ræða þar sem við (fjórar stúlkur úr 4. flokki léku með okkur og stóðu sig frábærlega) lékum líklega okkar besta leik í mótinu, fram til þessa. Á brattann var að sækja, fyrirfram, og vorum við búin undir það. Vorum við mjög skipulögð og öguð og náðum tveggja marka forskoti í fyrri hálfleik með tveimur mörkum frá Kristjáni. Grindavík sótti í sig veðrið, náði að skora og stóð 2-3 í leikhléi. Mörkin komu úr langskotum og eftir einstaklingsframtak og erfitt við þau að eiga, þrátt fyrir stórleik Sveins Hjartar í markinu.

Síðari hálfleikur var ekki ósvipaður hinum fyrri, bæði lið náðu að setja góð mörk og skipulag okkar hélt, eins og framast var unnt gegn sterkum mótherja. Erfitt var þó að ráða við langskot Grindavíkur. Hjá okkur skoruðu Emilíana og Gunnar tvö góð mörk. Urðu lyktir leiks 4-8, Grindavík í vil. Eru það góð úrslit.

Heilt yfir er ég afar ánægður með frammistöðuna en við vorum að leika mjög vel, skipulag var til fyrirmyndar og varnarleikur virkilega góður. Skyndisóknir okkar voru hættulegar og létum við fastan leik Grindavíkur ekki slá okkur út af laginu og var afar ánægjulegt var að sjá hvað við héldum mikilli yfirvegun, inni á vellinum. Mikill líkamlegur munur var á milli liða en Grindavík er með marga iðkendur á eldra ári. Kom það bersýnilega í ljós í leik sem þessum en að mínu mati voru það fyrst og fremst líkamlegir burðir sem skópu þennan sigur Grindavíkur. En sem áður segir er ég afar ánægður með frammistöðuna og við lékum sem lið.

Stutt í næsta leik og nú er bara að jafna sig fyrir hann.

Birgir Jónasson þjálfari.