Selfoss/Hamar/Ægir - Álftanes, stutt umfjöllun um leik í Faxaflóamóti

Sæl, öllsömul.

Stutt endurgjöf um leikinn í gær í Hveragerði.

Það er öðruvísi að spila knattspyrnu innandyra en utan og það tók okkur smá tíma að ná áttum (knötturinn skoppar öðruvísi, engin vindur, hitastig hærra, öðruvísi öndun o.s.frv.). Þá var augljós þreyta í flestum okkar eftir erfiðan leik gegn Grindavík á fimmtudag.

Náðum samt góðum spilaköflum þrátt fyrir marga tæknifeila. Mótherjinn var mun lakari en síðast (Grindavík) og mér fannst þetta aldrei vera spurning, allt frá fyrstu mínútu. Mér fannst við leika ágætlega en áttum ekki okkar besta leik. Hefði viljað sjá aðeins meira flæði í leik okkar (færri snertingar), betri staðsetningar í uppspili og kannski aðeins meiri ákefð. Mögulega hafði þreyta þarna einhvern áhrif.   

Heilt yfir er ég ánægður með leikinn. Náðum upp góðum köflum, nýttum breidd vallarins nokkuð vel og mörgum sóknum lauk með markskoti. Settum mörg góð mörk og dreifðist markaskorun vel. Mörk okkar urðu tíu talsins, gegn fjórum. Markaskorarar voru (vona að þetta sé rétt): Ívar 4, Valur 2, Gunnar 1, Kristján 1, Kristófer 1, Viktor 1.

Samkvæmt mínum kokkabókum var þetta næstsíðasti leikur okkar í Faxaflóamóti. Næsti leikur er ráðgerður sunnudaginn 29. april nk. þegar att verður kappi við eitt af liðum Breiðabliks.  

Birgir Jónasson þjálfari.