Njarðvík - Álftanes, umfjöllun um leik í Íslandsmóti

Sæl, öllsömul.

Ætla fara nokkrum orðum um leikinn við Njarðvík sem fram fór í gær.

Mér fannst við mæta miklu betur stemmdir til leiks en síðast og vildum augljóslega gera betur. Lékum nokkuð vel á erfiðum velli og það var hugsun á bak við það sem við vorum að gera. Nokkuð gott flæði var á knettinum og náðum við að skapa okkur mikið af hálffærum og færum.

Því miður náðum við ekki nýta yfirburði okkar og var refsað fyrir að leika sóknarknattspyrnu. Fengum við mörk í bakið eftir að hafa sótt. Lyktir leiks urðu 6-3, Njarðvík í vil. Mörk okkar gerðu Ívar, Vaka og Vera. Allt saman góð mörk sem komu eftir liðssamvinnu á meðan mörk Njarðvíkur komu fremur eftir einstaklingsframtak.

Heilt yfir er ég ánægður með frammistöðuna. Við lékum vel, létum knöttinn ganga, sköpuðum okkur færi en nýttum því miður færin ekki nægjanlega vel. Þá náðum við ekki að verjast skyndisóknum Njarðvíkur nægilega vel og því fór sem fór. Er ánægður með hugarfarið og það var betra en í síðasta kappleik. Mér fannst við höndla mótlæti nokkuð vel og vorum ekki að svekkja okkur á aðstæðum sem við stjórnum ekki, t.d. styrkleika mótherja, yfirborði leikvallar og dómara.

Höldum áfram á sömu braut og náum góðri æfingaviku. Næsti kappleikur svo um næstu helgi. Það verður erfiður leikur en þá verður att kappi við Sindra og leikið á heimavelli. 

Birgir Jónasson þjálfari.