Grótta - Álftanes: 3:4

Sæl, öllsömul!

Ég ætla þá að fara nokkrum orðum um leik Gróttu og Álftaness sem fram fór í morgun á Gróttuvelli við slæmar aðstæður vegna kulda og vindkælingar. Leikurinn var í Faxaflóamótinu. 

Skemmst er frá að segja að um hörkuleik var að ræða. Allnokkur getumunur var þó á liðunum þar sem okkar drengir voru mun sterkari, betur spilandi og mun hættulegri fram á við. Í fyrri hálfleik komu marktækifærin nánast á færibandi en inn vildi knötturinn ekki og af þeim sökum voru Gróttudrengir ávallt hættulegir í þau skipti sem þeim tókst að sækja. Léku þá okkar drengir með nokkuð sterkan vind í bakið. Á einhvern óskiljanlegan hátt var ekkert mark skorað í fyrri hálfleik. Kom þar tvennt til; frábær markvörður Gróttu og klaufagangur okkar drengja upp við markið, einkum í stöðunni einn gegn markverði. 

Síðari hálfleikur hafði ekki varað lengi þegar Gylfi Karl skoraði fyrsta mark leiksins eftir að hafa fengið stungusendingu inn fyrir vörn Gróttu. Stuttu síðar var Gylfi Karl aftur á ferðinni með gott mark eftir að hafa komist einn inn fyrir vörn Gróttu og leikið á markvörðinn. Eftir síðara markið slökuðu okkar drengir á og náðu Gróttudrengir að jafna metin með tveimur mörkum með stuttu millibili, þar af var hið fyrra afar ódýrt. Eftir það var eins og okkar drengir settu í annan gír og náðu að skora tvö mörk með skömmu millibili, fyrst Gylfi Karl með gott mark eftir að hafa komist inn fyrir vörn Gróttudrengja og hið síðara gerði Kjartan, einnig eftir að hafa komist inn fyrir flata vörn Gróttu. Eftir það virtust okkar drengir slaka á og Grótta náði að setja eitt mark í lokin. Lyktir urðu því 3:4, Álftanesi í vil. 

Ágæt úrslit en heilt yfir fannst mér frammistaðan ekkert sérstök. Einkum fannst mér okkar drengir ekki færa sér yfirburðina í nyt eins og þeir hafa getu og hæfileika til, því þeir voru miklu mun betri en Grótta. Vantaði talsvert upp á að breidd vallarins væri notuð sem skyldi og því voru drengir að athafna sig á alltof þröngu svæði vallarins. Skýrist það e. t. v. af því að ekki er æft á stórum velli að jafnaði. Þá fóru afar mörg úrvalsmarktækifæri í súginn og þar hefðu drengir getað gert betur. Af þeim sökum var Grótta inni í leiknum allan tímann. Á köflum voru þó góðir spilakaflar í leiknum, einkum inni á miðjunni og fram á við, og á það byggjum við og lærum af því sem betur hefði mátt fara. 

Birgir þjálfari.