Álftanes - FH, stutt umfjöllun um leik í Faxaflóamóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara nokkrum orðum um leikinn við FH í dag.

Lögðum leikinn upp með aðeins öðrum hætti en við höfum verið að gera, þ.e. ætluðum hátt á völlinn og að pressa mótherjann. Það gafst þó ekki betur en svo að í upphafi leiks fengum við á okkur þrjú mörk og lékum ekki vel. Nánar tiltekið komust við varla fram fyrir miðju á fyrstu mínútum leiksins, bæði vegna vinds og pressu frá mótherja. 

Eftir ca 15 mínútna leik fannst mér við eiginlega vakna til lífsins og þá fór þetta að ganga betur. Náðum við upp góðu spili, einkum inni á miðjunni, og náðum skapa okkur nokkur færi. Eitt skilaði frábæru marki sem Vaka skoraði eftir undirbúning frá Veru og Berglindi. Virkilega vel að verki staðið, þar sem við náðum upp góðum samleik í fáum snertingum og spiluðum okkur nánast inn í mark FH. FH náði að skora eitt til viðbótar og stóð 1-4 í leikhléi. Að mínu mati alltof stórt m.v. gang leiks og getu liðanna.

Í síðari hálfleik var þetta 50/50 leikur þar sem mér fannst við betur spilandi og náðum að skapa okkur fullt af marktækifærum, hálffærum og skotfærum. Fór svo að bæði lið gerðu sitt hvort markið en mark okkar gerði Berglind með svonefndum „gammi“, þ.e. fylgdi vel á eftir markskoti. Lyktir urðu því 2-5, FH í vil. Að mínu mati of stórt tap m.v. gang leiks.  

Heilt yfir fannst mér stúlkur leika vel, ef undan eru skildar fyrstu mínútur leiks, og líklega er þetta besta frammistaða liðsins í vetur. Hef eignlega verið að bíða eftir þessu því ég veit að það býr meira í stúlkum en úrslit hafa verið að gefa til kynna. Mér fannst vera barátta í stúlkum, gott flæði á knettinum og á köflum virkilega gott spil, ekki síst fram á við. Með öðrum orðum fannst mér vera hugsun á bak við það sem við vorum að gera og ekkert óðagot. Getum svo sannarlega byggt á þessu. Frábært hjá ykkur stúlkur.

Birgir Jónasson þjálfari.