Álftanes - Grindavík, stutt umfjöllun um leik í Íslandsmóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara örfáum orðum um leikinn við Grindavík í Íslandsmóti.

Um nokkuð jafnan leik var ræða, einkum úti á vellinum. Augljósir líkamlegir yfirburðir voru þó á liðunum þar sem lið Grindavíkur hefur að skipa nær eingöngu stúlkum á eldra ári. Þetta setti strik í reikninginn því Grindavíkurstúlkur spiluðu fast og eiginlega alltof fast á köflum, að mínu mati.  

Við náðum þó að verjast vel stærstan hluta leiks, skapa okkur fullt af möguleikum sóknarlega og það voru góðir spilakaflar í þessu hjá okkur. Stóran hluta leiks voru við inni í honum þrátt fyrir að hafa tapað honum 1-6. Þær tölur finnst mér ekki gefa rétta mynd af leiknum og gangi leiksins. Mark okkar gerði Vaka en einkar vel var að því marki staðið.

Er heilt yfir ánægður með frammistöðuna. Það sem við hefðum e.t.v. mátt gera betur og þurfum að æfa er að falla aftar á völlinn með öftustu línu þegar ekki næst að setja pressu á leikmann með knöttinn. Þá er auðvitað brýnt að setja ávallt pressu á leikmanninn með knöttinn á ákveðnum stöðum á vellinum, einkum á eigin vallarhelmingi. Þetta verður ekki kennt á einni nóttu og mun lærast smám saman.

Næsti kappleikur er svo á fimmtudag, kl. 16, gegn sameiginlegu liði Aftureldingar/Fram. Leikið verður í efri byggðum Reykjavíkur.

Birgir Jónasson þjálfari.