RKV - Álftanes, stutt umfjöllun um leik í Íslandsmóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara örfáum orðum um leikinn við RKV (Reynir/Keflavík/Víðir) í gær.

Um hörkuleik var að ræða þar sem aðstæður til knattspyrnuiðkunar, um hásumar, voru ekkert sérstakar. Fyrirfram mátti búast við að á brattann yrði að sækja. Jafnræði var með liðum og mér fannst stúlkurnar okkar ná að sýna allar sínu bestu hliðar og líklega leika sinn besta leik í sumar, fram til þessa.

Settum tvö virkilega góð mörk og leiddum leikinn um tíma, eftir að hafa lent undir snemma leiks. Niðurstaðan var jafntefli, 2-2, sem mögulega voru sanngjörn úrslit. Sigurinn hefði þó getað fallið með báðum liðum. Mörk okkar gerðu Vera og Berglind. Um virkilega góð mörk var að ræða sem bæði komu með skotum fyrir utan vítateig.

Heilt yfir fannst mér frammistaðan virkilega góð, frábærir spilakaflar voru í leik liðsins og þeir bestu sem ég hef séð hjá stúlkunum, fram til þessa. Reyndum við halda knettinum niðri og tókst það á köflum virkilega vel þar sem stúlkur voru yfirvegaðar og reyndu að finna næsta mann (samherja) í fætur. Sóknarleikurinn var virkilega góður, samvinna tveggja til þriggja manna var góð og við náðum að skapa okkur bæði marktækifæri og skotfæri fyrir utan vítateig.

Tel að þessi frammistaða sé gott vegnesti fyrir næstu kappleiki en sá næsti er á fimmtudag í Breiðholti. Getum svo sannarlega byggt á þessu. Flott hjá ykkur stúlkur.

Birgir Jónasson þjálfari.