Breiðholt - Álftanes, stutt umfjöllun um leik í Íslandsmóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara nokkrum orðum um leikinn í gær gegn Breiðholti.

Í stuttu máli sýndu stúlkur allar sínar bestu hliðar og léku líklega sinn besta leik undir minni stjórn, fram til þessa. Stúlkurnar hreinlega sundurspiluðu Breiðholt frá upphafi til enda, en fyrirfram mátti búast við nokkuð jöfnum leik.

Gerðum fjögur mörk í fyrri hálfleik og sjö í hinum síðari. Breiðholt náði að setja eitt mark á okkur. Mörk okkar, sem hefðu hæglega getað orðið fleiri, gerðu Berglind, Emilía, Hildur, Mist, Vaka og Vera. Er vonandi ekki að gleyma neinum en mörk okkar komu í öllum regnbogans litum. Eitt eiga mörkin sammerkt, þau komu eftir samvinnu tveggja, þriggja og fjögurra leikmanna, ekki eftir einstaklingsframtök. Það tel ég afar jákvætt.  

Það sem ég var ánægðastur með var tvennt. Í fyrsta lagi var leikskipulagið mjög gott og liðið náði í varnarleiknum að falla aftur á réttum augnablikum (ekki síst aftasta varnarlína). Í sóknarleiknum náðum við enn fremur að nýta breidd vallarins til fullnustu og stækka völlinn um leið og við unnum hann. Í öðru lagi var sóknarleikur okkar framúrskarandi og hreint frábærir spilakaflar voru í leiknum, þar sem náðum að láta knöttinn fljóta, og í framhaldi skapa okkur urmul marktækifæra.

Heilt yfir er ég afar ánægður með frammistöðuna og hve stúlkur er áhugasamar og samstilltar. Þetta vill maður sjá sem þjálfari. Frábært hjá ykkur. Haldið áfram á sömu braut.

Birgir Jónasson þjálfari.