Umfjöllun um síðustu tvo leiki í Íslandsmóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara nokkrum orðum um kappleiki vikunnar en í nægu hefur verið að snúast í þessari viku.

Fyrst er það mánudagsleikurinn í Grindavík. Byrjuðum leikinn ekki nægjanlega vel og fengum á okkur þrjú mörk á fyrstu sjö mínútum leiksins. Eftir það var að brattann að sækja. Verð þó að segja að leikurinn var oft og tíðum ekki ójafn úti á vellinum og við náðum alveg ágætum spilaköflum, án þess þó að ná að skapa okkur afgerandi marktækifæri, framan af. Réðum hins vegar illa við þrjár til fjórar stúlkur í liði Grindavíkur og því tapaðist leikurinn stórt. Helst gefa úrslit leiksins til kynna aldursmun en ekki getumun. Heilt yfir var þó frammistaðan ekki nægjanlega góð og við bárum of mikla virðingu fyrir mótherjanum. Að mínu mati fannst mér við vera svolítið ryðguð enda ekki leikið um nokkurt skeið. Vorum e.t.v. ekki alveg tilbúin í þetta verkefni á þessum tímapunkti. Fyrsta tap okkar í tvo mánuði því staðreynd.

Í síðari leiknum á Ísafirði snérist dæmið heldur betur við en um algjöra yfirburði okkar stúlkna var að ræða. Náðum þó e.t.v. ekki að nýta okkur þá yfirburði til fullnustu og framan af fannst mér við of rög við að skjóta á markið. Sköpuðum okkur mikið að tækifærum en náðum ekki að vinna nægjanlega vel úr þeim möguleikum og við vorum of mikið að reyna komast í gegnum miðjuna og þræða knöttinn í gegnum þröngt svæði á síðasta þriðjungi vallar, í stað þess að nota breidd vallar. Að mínu mati virkaði eins og við værum enn ryðguð og gerðum einnig svolítið af tæknifeilum. Fannst það þó lagast þegar á leikinn leið. Uppskárum að endingu góðan og öruggan sigur þar sem Valgerður og Emilía sáu um markaskorun. Heilt yfir var ég ánægður með frammistöðuna og ferðin var hin skemmtilegasta, þrátt fyrir síðbúna heimkomu. 

Byggjum á þessu stúlkur og það er stutt í næstu leiki, Afturelding/Fram á mánudag og RKV á miðvikudag. Báðir kappleikir fara fram heima. Þurfum að halda áfram og stefna á að þróa leik okkar og verða betri.

Birgir Jónasson þjálfari.