Álftanes - Beiðholt, stutt umfjöllun

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara örfáum orðum um leikinn við Breiðholt í gær.

Þetta var nokkuð skrýtinn leikur, þar sem okkar stúlkur voru mun betra liðið úti á vellinum fram af, en Breiðholtstúlkur hættulegri fram á við. Það skilaði þeim þremur mörkum á stuttum kafla í fyrri hálfleik. Öll þau mörk voru keimlík þar sem línan okkar var hátt á vellinum og við fengum á okkur skyndisóknir. Náðum aðeins að rétta okkar hlut í fyrri hálfleik með góðu marki frá Emilíu.

Í síðari hálfleik fannst mér aðeins eitt lið á vellinum þar sem við herjuðum á þær frá fyrstu mínútu. Náðum að saxa á forskotið með góðu marki frá Veru, að jafna metin með góðu marki frá Valdísi úr langskoti og loksins að komast yfir með góðu marki frá Emilíu. Breiðholt náði svo að jafna leikinn úr síðustu spyrnu leiksins sem kom úr aukaspyrnu. 4-4 urðu því lyktir leiks.

Heilt yfir er ég ánægður með frammistöðuna. Ég var ánægður með sóknarleik liðsins, náðum að halda knetti vel innan liðsins en vorum e.t.v. ekki nægjanlega beittar í fyrri hálfleik. Það lagaðist til muna í síðari hálfleik. Varnarleikur okkar í fyrri hálfleik var ekki nægjanlega góður, einkum á þeim kafla sem við fengum á okkur mörkin þrjú. Þar klikkaði tvennt, annars vegar náðum við ekki að setja nægjanlega pressu á leikmanninn með knöttinn og hins vegar féll línan ekki til baka að sama skapi, en þetta tvennt vinnur saman. Af þeim sökum náðu Breiðholtstúlkur að stinga knettinum fyrir aftar varnarlínu okkar og tóku okkur kannski svolítið í bólinu, eins og sagt er. Við náðum okkur þó á fætur og rúmlega það.

Við getum lært af þessu. Mögulega vanmátum við mótherjarann og byrjuðum leikinn ekki af nægjanlegum krafti. Við vorum sigurstranglegri fyrir leikinn þar sem við höfðum unnið þær stórt fyrr í sumar og Breiðholti ekki gengið vel í sumar. Það er hins vegar enginn leikur búinn fyrr en búið er að leika hann og það er ekkert gefið. Það þekkjum við því fyrr í sumar töpuðum við t.d. stórt fyrir Aftureldingu/Fram á útivelli en hefðum getað unnið þær í síðari leiknum, þar sem við vorum betur spilandi liðið, sælla minninga.  

Birgir Jónasson þjálfari.