Umfjöllun um leiki gegn Þrótti R. í Faxaflóa-/Reykjavíkurmóti

Sæl, öllsömul.

Ætla fara nokkrum orðum um kappleiki gærdagsins gegn Þrótti R í A- og B-liðum.

Stúlkurnar léku af fingrum fram og sýndu allar sínar bestu hliðar.

A-liðið lék einn sinn besta leik og tók Þrótt hreinlega í kennslustund. Fyrirfram mátti búast við hörkuleik þar sem halla hefði fremur átt á okkar stúlkur, sé tekið mið af úrslitum beggja liða í riðlinum. Önnur varð raunin. Þróttur komst varla fram yfir miðju fyrr en eftir ca 20 mínútna leik og fyrri hálfleikur var algjör einstefna. Mörkin urðu tvö í fyrri hálfleik, án þess að Þróttur næði að skora. Aðeins meira jafnræði var í síðari hálfleik en okkar stúlkur þó mun betri. Mörkin urðu einnig tvö í síðari hálfleik, án þess að Þróttur næði að skora. 4-0 sigur því staðreynd og var hann síst of stór. Mörkin gerðu Vaka 3 og Berglind 1.

B-liðið lék einnig afar vel, en þessu sinni léku þrjár stúlkur úr 5. flokki með liðinu, í fyrsta sinn á þessu þjálfunartímabili (Fanney, Védís og Þórdís). Okkar stúlkur léku með vind í bakið í fyrri hálfleik og voru mun sterkara liðið. Mörkin urðu tvö í fyrri hálfleik og var það sanngjörn staða (síst of stór). Þar sem bætti í vindinn þegar á kvöldið leið hefði fyrirfram mátt búast við afar erfiðum síðari hálfleik. Sú varð ekki raunin og var jafnræði með liðum þar sem Þróttur sótti aðeins meira en okkar stúlkur voru stórhættulegar fram á við. Eitt mark var gert í síðari hálfleik og það kom frá okkar stúlkum. 3-0 sigur því staðreynd og var hann sanngjarn. Mörkin gerðu Bjartey 1, Eva María 1 og Þórdís úr 5. flokki 1, en hún kom inn í hópinn á síðustu stundu vegna manneklu.  

Heilt yfir er ég afar ánægður með frammistöðu beggja liða. A-liðið lék framúrskarandi, einn sinn besta leik, og B-liðið lék einnig vel. A-liðið náði upp góðri pressu og frábæru spilaköflum. Breidd vallar nýttist vel og stúlkur voru stórhættulegar fram á við. Í raun kom ógn fram á við frá mjög mörgum leikmönnum. Veður, sem versnaði þegar leið á kvöldið. setti aðeins strik í reikninginn í leik B-liðsins og af þeim sökum var meira af tæknifeilum í þeim leik. Heilt yfir lék B-liðið þó vel, skapaði sér fullt af marktækifærum og náði að halda hreinu með seiglu. Þá lék B-liðið hreint út sagt frábæra vörn.  

Birgir Jónasson þjálfari.