Skokkhópur Álftaness

Nýtt hlaupaár er hafið hjá Skokkhópi Álftaness.

Á meðal helstu markmiða hópsins í ár eru eftirfarandi hlaup:

Stjörnuhlaupið fer fram 19.maí. Í boði eru 5 og 10 km. Frábær umgjörð er um hlaupið hjá vinum okkar í Stjörnunni og fjöldi veglegra útdráttarvinninga.

Miðnæturhlaup Suzuki er ávallt haldið í kringum jónsmessu, að þessu sinni fimmtudagskvöldið 21. júní. Í Miðnæturhlaupi Suzuki eru þrjár vegalengdir í boði; hálfmaraþon, 10 km og 5 km. Hlaupið hefst á Engjavegi nálægt Laugardalshöll og endar í trjágöngunum við þvottalaugarnar í Laugardal.

Snæfellsjökulshlaupið er krefjandi og skemmtilegt utanvegahlaup sem er halið 30. júní. Hlaupið er frá Arnarstapa yfir jökulháls til Ólafsvíkur á Snæfellsnesi, um 22 km leið. Lang stærsti hluti hlaupsins er malarvegur. Fyrstu 8 km þarf að hlaupa uppí móti í c.a. 700 metra hæð síðan tekur hlaupaleiðin að smá lækka þar til komið er til Ólafsvíkur.

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka er ómissandi hluti af hlaupasumrinu hjá Skokkhópi Álftaness. Reykjavíkurmaraþon fer fram í 35. sinn laugardaginn 18. ágúst 2018. Fyrsta Reykjavíkurmaraþonið fór fram árið 1984 en þá tóku 214 hlauparar frá átta löndum þátt. Árið 2017 tóku rúmlega 14 þúsund manns þátt í hlaupinu. Í boði eru 10 km, hálft og heilt maraþon. Að hlaupi loknu hittist hópurinn og fagnar saman.

Hópurinn tekur þátt í fjölda annarra hlaupa á árinu, fer í hlaupaferð í sumar út fyrir borgarmörkin og heldur árlegan haustfagnað að loknu keppnistímabili.

Einnig er starfræktur gönguhópur innan skokkhópsins.

Skráning í hópinn fer fram í Nóra: https://alftanes.felog.is

Kveðja,

Hlauparáð Skokkhóps Álftaness