Æfing á sunnudag

Sælar, stúlkur!

Vek athygli á að á sunnudag, kl. 12, verður æfing. Ráðgerður æfingatími er 75 mínútur.

Birgir Jónasson þjálfari.

Álftanes - Fram, stutt umfjöllun

Sælar, stúlkur!

Ég ætla þá að fara nokkrum orðum um leikinn við Fram í gær sem fram fór á Bessastaðavelli við bestu aðstæður.

Um spennandi leik var að ræða þar sem nokkurt jafnræði var með liðum, einkum úti á vellinum. Að mínu mati höfðum við fremur undirtökin en leikurinn var þó kaflaskiptur að því leyti. Eftir nokkuð góðan kafla náði Fram að skora síðari hlutann í fyrri hálfleik en það mark kom eftir barning inni í vítateignum sem endaði með skoti af stuttu færi er hafnaði í markinu. Þegar þar var komið sögu höfðum við fengið a.m.k. tvö úrvalsmarktækifæri sem ekki nýttust. Eftir markið náðum við að pressa hátt á vellinum og skapa okkur a.m.k. eitt úrvalsmarkstækifæri, en inn vildi knötturinn ekki. Stóð því 0-1 í leikhléi, Fram í vil.

Í síðari hálfleik vorum við mun betra liðið á vellinum að mínu mati. Marktækifærin voru ekki mörg en þau sem komu voru úrvalsfæri. Þau nýttust hins vegar ekki og einu sinni voru Framstúlkur nálægt því að bæta við. Lyktir leiks urðu því 0-1, Fram í vil.

Heilt yfir fannst mér leikur okkar stúlkna harla góður og ég var ánægður með frammistöðuna. Leikaðferð okkar var nokkuð frábrugðin þeirri sem verið hefur, ef undan er skilinn leikur okkar við Grindavík, en varnarleikur liðsins var mun hærra á vellinum en verið hefur. Það gaf góða raun en þó fannst mér svolítið óöryggi í öftustu línu í fyrri hálfleik. Mikið öryggi var hins vegar þar í síðari hálfleik. Í leiknum voru góðir spilakaflar allt frá öftustu línu og nokkrar mjög góðar sóknir eftir samvinnu tveggja til þriggja manna. Þá fannst mér föstu leikatriðin mjög vel útfærð og beinskeytt. Það helsta sem gagnrýna mætti er að á stundum var ónákvæmni í einföldum sendingum þar sem vantaði yfirvegum. Þá fannst mér okkur skorta klókindi og yfirvegun upp við markið til þess að marktækifærin nýttust. Hið síðasttalda atriði reyndist dýrkeypt í leik sem þessum. Um það ætla ég þó ekki að fjalla frekar og er ég sannfærður um að stúlkur munu gera betur næst.

Birgir Jónasson þjálfari.  

Leikur í Íslandsmóti, tilhögun

Sælar, stúlkur!

Á morgun, miðvikudag, verður leikið í Íslandsmóti þegar att verður kappi við Fram. Leikið verður á Bessastaðavelli og hefjast leikar kl. 20.

Allar stúlkur sem mættu á æfingu í dag eru boðaðar. Þurfa stúlkur að vera mættar kl. 18:30 á leikstað og hafa allan tiltækan búnað meðferðis, venju samkvæmt. Sjúkraþjálfari verður á staðnum.

Birgir Jónasson þjálfari.

Dagskrá næstu viku, 29. júní til 5. júlí

Sælar, stúlkur!

 

Dagskrá næstu viku verður eftirfarandi:

 

Mánudagur, kl.19:30, æfing (Bessastaðavöllur).

Þriðjudagur, kl. 18, æfing (Bessastaðavöllur).

Miðvikudagur, kl. 20, leikur í Íslandsmóti gegn Fram (Bessastaðavöllur).

Fimmtudagur, kl. 18, æfing (Bessastaðavöllur).

 

Mögulega verður svo bætt við æfingu um næstu helgi.

 

Birgir Jónasson þjálfari.