HK/Víkingur - Álftanes: 2-1, stutt umfjöllun

Sælar, stúlkur!

Ég ætla að fara nokkrum orðum um leikinn í dag við HK/Víking, eins og ég sé hann. Fyrirfram vissum við að á brattann yrði að sækja. Það kom á daginn. Framan af gekk það upp sem lagt var upp með, þ.e. að vera agaðar og skipulagðar varnarlega með áherslu á gagnkvæma völdun samherja, fastar fyrir í stöðunni maður gegn manni og beita skyndisóknum. Segja má að fyrri hálfleikur hafi verið nánast fullkominn, svo langt sem það nær, þ.e. ein sókn og eitt mark. Það segir þó ekki alla söguna því HK/Víkingur náði að skapa sér talsvert af hálffærum í fyrri hálfleik og voru að valda okkur talsverðum örðugleikum en þær pressuðu og léku af krafti. Mark okkar skoraði Oddný eftir vel útfærða skyndisókn, hálfgert skólabókardæmi um skyndisóknarleik, þar sem hún fékk stutta sendingu inn fyrir vörnina, kom sér í stöðuna ein gegn markverði og skoraði.

Í síðari hálfleik var meira jafnræði með liðunum og skyndisóknir okkar urðu fleiri. Þrátt fyrir það náði HK/Víkingur að skora tvö mörk á þremur mínútum í síðari hálfleik. Annað markið kom eftir að knötturinn hafði glatast á miðsvæðinu og þunga sókn í framhaldi. Síðara markið kom úr föstu leikatriði, þ.e. eftir hornspyrnu, en allmargar hornspyrnur HK/Víkings voru að valda usla en þær voru einkar vel framkvæmdar. Eftir það náðum við ekki vinna nægjanlega vel úr þeim möguleikum er gáfust til skyndisókna og því fór sem fór, 2-1, HK/Víkingi í vil.

Heilt yfir var ég mjög ánægður með frammistöðuna. Mótherjinn var sterkur og í raun á allt öðrum stað, þjálfunarlega, en við, sem endurspeglaðist einkum í því að mótherjinn er góðri leikæfingu og gat sett mikla pressu á leikmann með knöttinn. Þá pressu réðum við ekki almennilega við enda vantar talsvert upp á að stúlkur séu í nægilega góðri leikþjálfun (það mun smám saman breytast á næstu vikum). Þá voru allmargar stúlkur okkar að glíma við meiðsli sem setur mikið strik í reikninginn í svo fámennum leikmannahópi. Segja má að í dag hafi HK/Víkingur verið skrefinu á undan. Að mínu mati gekk leikskipulag okkar því sem næst upp og frammistaðan er skref fram á við. Við þurftum hins vegar að lúta í lægra haldi fyrir betra liði og það er engin skömm.

Birgir Jónasson þjálfari.