Álftanes - Sindri, 4-1, stutt umfjöllun

Sæl, öllsömul!

Ég ætla að fara örfáum orðum um leik Álftaness og Sindra sem fram fór í Lengjubikar KSÍ í gær, sunnudag. Leikið var á Samsung-vellinum í Garðabæ.

Framan af einkenndist leikurinn af mikilli baráttu þrátt fyrir að nokkuð snemma leiks kæmi í ljós að Álftanes var mun betra liðið á vellinum. Þegar u.þ.b. tíu mínútur voru liðnar fóru stúlkurnar að skapa sér marktækifæri, einkum þó hálffæri. Það var svo þegar líða fór á hálfleikinn að tvö mörk frá Álftanesi komu með skömmu millibili. Þar var Erna á ferð með nokkuð keimlík mörk þar sem hún náði að koma sér í góða stöðu, ein gegn markverði, og brást ekki bogalistin. Stóð því 2-0 í leikhléi, Álftanesi í vil. Mjög sanngjörn staða og síst of mikil forysta.

Í síðari hálfleik var í raun aðeins eitt lið á vellinum og eftir u.þ.b. fimm mínútna leik náði Oddný að skora gott mark eftir að hafa komist ein gegn markverði eftir frábæran undirbúning frá Sigrúnu. Eftir það var meira öryggi í leik Álftaness en þegar leið á hálfleikinn datt leikurinn aðeins niður og virtust stúlkur verða nokkuð værukærar. Um það bil tíu mínútum fyrir leikslok náði Sindri að minnka muninn, nokkuð gegn gangi leiksins, en um var að ræða gott mark eftir góða skyndisókn. Stuttu síðar náði Erna svo að skora sitt þriðja mark eftir að hafa komist ein gegn markverði, eftir að hafa fengið sendingu inn fyrir flata vörn Sindra frá Sögu. Þar við sat og urðu lyktir leiks 4-1, Álftanesi í vil. Mjög sanngjarnt miðað við gang leiks og síst of stór sigur.

Heilt yfir var þetta góður leikur hjá stúlkunum. Góðir spilakaflar voru í leiknum þar sem stúlkur náðu að láta knöttinn ganga í fáum snertingum. Þá gerði aftasta lína ítrekað vel að taka knöttinn niður og spila honum frá vörninni. Stúlkurnar voru agaðar og skipulagðar varnarlega og gáfu fá færi á sér og Sindri fékk úr litlu að moða. Þá voru mörkin öll frábær og komu í raun eftir mjög einfalda hluti. Það sem helst mætti gagnrýna er að nokkuð mikið var um ónákvæmar sendingar undir lítilli pressu á köflum (eilítið óðagot) og leikur liðsins datt svolítið niður um miðbik síðari hálfleiks. Að mati þjálfara er stígandi í frammistöðunni og það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.

Næsta æfing er svo annað kvöld, þriðjudag, kl. 19:30, í Garðabæ. Þá er næsti kappleikur á miðvikudag, kl. 18:30, þegar att verður kappi við Fram á Framvelli en sá leikur er í Lengjubikar KSÍ.

Birgir Jónasson þjálfari.