Afturelding - Álftanes, stutt umfjöllun

Sælar, stúlkur.

Stutt endurgjöf eftir leikinn í gær. Eins og við töluðum um var leikurinn heilt yfir nokkuð góður af okkar hálfu, e.t.v. að undanskildum miðbik síðari hálfleiks þar sem við duttum alltof mikið niður á völlinn.

Þegar maður skoðar einfalda tölfræði úr leiknum, þ.e. hvenær mörk leiksins komu, þá fengum við á okkur mörk á mjög slæmum tímapunktum í leiknum (auðvitað alltaf slæmt að fá á sig mark). Fyrst þegar leikurinn var varla byrjaður (sem er mjög slæmt), næsta alveg undir lok fyrri hálfleiks þegar leikurinn var í járnum (sem er líka mjög slæmt) og að síðustu þegar innan við 20 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik (stundum sagt að leikir vinnist gjarnan á fyrstu 20 mínútum síðari hálfleiks).

Mér fannst reyndar fyrsta markið og þriðja markið bæði mjög ódýr sem er dýrt í leikjum sem þessum. Þá voru fínir möguleikar fram á við í leiknum sem ekki nýttust. Var eins og vantaði meira bit og fleiri leikmenn inn í teiginn (þegar ég tala um meira bit þurfum við t.d., á réttum augnablikum, að vera hugrakkari að fara á mennina í stöðunni tveir gegn tveimur, þrír gegn þremur, og hreinlega taka þá á þegar engir möguleikar eru að senda knöttinn, fremur en að snúa við og fara til baka).

Það sem ég var ánægðastur með var að það var flæði á knettinum og hugsun að baki því sem við vorum að gera. Uppspilið var gott og mér fannst stafa ógn af bakvörðum liðsins en í leikjum sem þessum hefur það ekki oft verið þannig.

Ég held að við séum ekki komin á þann stað að geta unnið leikið sem þessa, bæði úthaldslega og leikæfingalega. Við erum þó óðfluga að nálgast þann stað sem ég sé okkur á næstu mánuði.

Það sem ég hef áhuga á að gera á næstunni er að láta taka upp leiki og leikgreina leik okkar betur, þ.e. heppnaðar og misheppnaðar sendingar, návígi, hvar við glötum knettinum, hvar við vinnum hann o.s.frv., og reyna að vinna út frá því hvernig einstakir leikmenn geta bætt sig.

Birgir Jónasson þjálfari.