Álftanes - HK/Víkingur, stutt umfjöllun

Sælar, stúlkur.

Örstutt endurgjöf varðandi leikinn í gær.

Mér fannst þetta einkennilegur leikur, við lékum varnartaktík sem mér fannst ganga nokkuð vel, ef undan er skilinn ca 20 mínútna kafli í leiknum þar sem við fengum á okkur fjögur mörk, þ.e. í lok fyrri hálfleiks og upphafi hins síðari. Einkum var það upphaf síðari hálfleiks þar sem við lékum afleitlega.

Það er einkennilegt að segja að varnarsinnuð taktík hafi gengið vel og fá á sig fimm mörk í leik. Þannig var það nú samt, a.m.k. eins og ég upplifði það, og Keflavík skapaði sér engin marktækifæri í leiknum, ef undan eru skilin mörkin, en eitt þeirra var mjög ódýrt (beint úr hornspyrnu), annað kom úr vítaspyrnu (sem kom eftir klafs og engin sérstök hætta á ferðum) og tvö þeirra komu með skalla eftir fyrirgjöf en slík mörk höfum við ekki fengið á okkur fram til þessa.

Það sem við tökum úr þessum leik sem styrkleika er að mér fannst varnarfærslur leikmanna mjög góðar heilt yfir, einkum framan af leik. Þá fannst mér þau fáu tækifæri sem við fengum fram á við, nýtast vel, en mark okkar gerði Oddý og kom það úr föstu leikatriði (eftir hornspyrnu - annan leikinn í röð). Loks fannst mér uppspil öftustu varnarlínu vera gott og það var ávallt hugsun í því að koma knettinum á næsta mann.  

Það sem við getum lært af þessu er að þegar þetta kerfi er leikið er lykilatriði að í framhaldi af uppspili þarf að vera mikil hreyfing á mönnum. Þeir leikmenn sem eiga t.d. að sækja þurfa að vera fljótir að koma sér í stöður og eftir fyrirfram gefnum leiðum, þ.e. annar bakvörður, tveir miðvallarleikmenn og svo framherji eftir atvikum (á fyrst og fremst að halda knetti og koma í síðari bylgju). Kerfið býður upp á mikið sóknarpláss og það náðum við ekki að nýta okkur nægjanlega vel í gær, því svo sannarlega voru möguleikar til að skapa mun meira fram á við.    

Að sjálfsögðu þurfum við að æfa þetta mun betur og það þurfum við að gera.

Birgir Jónasson þjálfari.