Uppgangur í íþróttastarfinu á Álftanesi
Í of langan tíma hefur knattspyrnudeildin hjá UMFÁ aðeins getað boðið upp á æfingar frá 8.-5.
Flokks karla og kvenna.
Þetta ræðst alltaf á fjölda iðkenda og síðustu árin hafa árgangarnir einfaldlega verið of fámennir til að hægt væri að sinna þeim áfram. Við 12 ára aldur hafa krakkarnir okkar því þurft að leita annað til að halda íþróttaiðkun sinni áfram.
Það er margt sem breytist þegar krakkarnir ganga upp í 4.flokk, ekki bara nýtt félag og stærri æfingahópar heldur breytist leikurinn úr 8 manna bolta á hálfum velli yfir í 11 manna bolta á heilum velli. Breytingin á leiknum er næg áskorun ein og sér, en þegar við bætast breytingar á æfingastöðum, nýir samherjar og fjölmennari hópar, hefur brottfall reynst talsvert hærra en við viljum sjá eða teljum ásættanlegt.
Til að sporna við þessari þróun ætlum því að vera með 4.flokk karla komandi haust. Þar er nægur fjöldi iðkenda að ganga upp í flokkinn til að hægt sé að halda úti liði (f. 2012 og 2013). Við getum bætt við okkur fleiri iðkendum, svo ef það eru drengir sem eru ekki að finna sig í stærri félögunum í næsta nágrenni við okkur bjóðum við þá velkomna til okkar.
Þjálfararmál eru klár og aðstæður til knattspyrnuiðkunar fyrsta flokks. Nýtt gervigras verður lagt í sumar og mikill metnaður fyrir hendi að halda úti öflugu starfi. Því miður eru 2012 og 2013 árgangar kvennamegin of fámennir til að hægt sé að skrá 4.flokk kvenna til leiks þetta haustið. Við miðum við 20 iðkendur fyrir 4. flokk, en ef við fáum 15 til 16 áhugasamar stelpur í flokkinn mun félagið skrá lið til keppnis í haust.
Félagið ætlar að halda tvær kynningar á 4.flokks starfi komandi tímabils í lok ágúsmánaðar. Fyrri fundurinn verður tileinkaður 4.flokki karla og sá seinni að kanna hvort grundvöllur sé fyrir 4.flokki kvenna. Þessir fundir verða auglýstir betur þegar nær dregur og hvetjum við bæði iðkendur fædda 2012 og 2013 sem og foreldra þeirra til að mæta, hvort sem þau hafa verið í starfinu hjá okkur áður eða ekki.
Einhver velta kannski fyrir sér hvers vegna þau ættu að velja UMFÁ fyrir sig og börnin sín. Í fljótu bragði get ég bent á eftirfarandi: Kostir þess að vera í fámennara félagi eru fjölmargir. Krakkarnir kynnast mjög vel, bæði hvert öðru og þjálfurum sínum. Við leggjum okkur fram við að mæta þörfum hvers og eins, veita þeim viðeigandi áskoranir og hvetjum þau til að setja sér eigin markmið og vinna að þeim.
Það týnist enginn iðkandi í fjöldanum hjá okkur og allir eru mikilvægur hlekkur í liðinu, alveg óháð því hve langt á veg þau eru komin í þróun sinni í íþróttinni. Foreldrarnir kynnast sömuleiðis fljótt, enda virkir þátttakendur í starfinu okkar og má með sanni segja að samheldni og samvinna sé einkennandi í öllu okkar starfi.
Hjá okkur er engin stéttarskipting á milli liða innan hópanna og þjálfarar sinna öllum liðum jafnt. Samskipti og samvinna mismunandi deilda félagsins er einnig afar góð og við gerum okkar besta til að æfingar og leikir deildanna stangist ekki á. Það hefur gengið mjög vel hingað til og ekkert sem bendir til þess að það muni breytast.
Þannig sköpum við grundvöll fyrir fjölbreytta þjálfun því við trúum því að til lengri tíma litið græði allir á því, ekki síst krakkarnir sjálfir. Bestu meðmælendurnir eru auðvitað fyrrum iðkendur og foreldrar sem hafa farið með börnin sín í gegnum íþróttastarfið okkar. Ef þið þekkið einhver þeirra, hvet ég ykkur til að heyra í þeim og fá þannig betri innsýn í starfið okkar.
Einnig geta áhugasamir sent fyrirspurnir á undirritaðan á netfangið sammiarna@outlook.com.
Bestu kveðjur
Samúel Ívar Árnason (yfirþjálfari yngri flokka)