Strákarnir einum leik frá sæti í 1.deild

karfa mynd 12Körfuknattleikslið Ungmennafélags Álftaness er nú einum sigri frá því að tryggja sér sæti í 1. deild, eftir 78-75 sigur á liði Laugdæla frá Laugarvatni.

Leikurinn fór fram í íþróttahúsinu á Laugarvatni, sterkum heimavelli Laugdæla og var dágóðir fjöldi áhorfenda mættur til fylgjast með. Trommusveit Laugdæla lét vel í sér heyra allan leikinn.

Leikurinn var jafn allan tímann. Heimamenn mættu grimmari til leiks og voru mjög beittir í sókn. Arnar Hólm Kristjánsson hélt Álftnesingum inni í leiknum og skoraði fyrstu ellefu stig liðsins. Fleiri leikmenn liðsins fylgdu svo eftir og náðu Álftnesingar fimm stiga forystu um miðjan fyrsta leikhluta. Laugdælir jöfnuðu skömmu síðar og var leikurinn jafn allan annan leikhluta. Staðan í hálfleik var 37 – 37. Lítið skorað og spennustigið hátt.

Leikurinn breyttist lítið í þriðja leikhluta. Liðin skiptust á að vera yfir og varð munurinn aldrei meira en fimm stig. Laugdælir virtust vera að ná tökum á leiknum, en Sveinn Birkir Björnsson, þjálfari Álftnesinga, var skynsamur og varmenn af mikilli kænsku. Þeir komu sterkir inn af bekknum og var framlag þeirra ómetanlegt.

Framan af fjórða leikhluta var leikurinn enn í jafnvægi – Laugdælir þó yfirleitt skrefi á undan Álftnesingum. Um miðjan leikhlutann var þó eins og Álftnesingar skiptu um gír. Vörnin varð sterkari og sóknarleikurinn beittari. Álftnesingar náðu sex stiga forystu og urðu soknaraðgerðir Laugdæla urðu örvæntingafyllri. Þeim tókst þó að ná muninum niður í tvö stig þegar um mínúta var eftir. Álftnesingar héldu þá í sókn sem endaði með því að Jón Ólafur Magnússon setti niður rándýra þriggjastigakörfu sem reyndist rothöggið. Laugdælar reyndu að klóra í bakkann og náðu að koma muninum niður í þrjú stig þegar fjórar sekúndur voru eftir. Nær komust þeir ekki og fögnuðu Álftnesingar mikið í leiksklok.

Sigurinn kom eflaust einhverjum á óvart – Laugdælir unnu riðil sinn í deildinni með afgerandi forystu, en Álftnesingar voru næst neðstir í sínum riðli um áramótin. Mikill uppgangur hefur verið á liðinu síðan þá og hefur liðið unnið sjö af síðustu átta leikjum.

Stigasor Álftnesinga dreifðist svo:

Kjartan 24, Daði 16, Arnar 15, Jónsi 8, Cannon 5, Sibbi 4, Birkir 4, Davíð 2

Álftnesingar leika á föstudaginn í kennaraháskólanum, í undanúrslitum 2. deildar. Leikurinn verður gegn Íþróttafélagi Breiðholts og hefst klukkan 19:30. Allir eru hvattir til þess að mæta.