Úrslitakeppni Íslandsmótsins í Futsal innanhússknattspyrnu - stutt umfjöllun

Sæl, öllsömul!

Á sunnudag, 8. apríl, var leikið í úrslitakeppni Íslandsmótsins í Futsal innanhússknattspyrnu. Leikið var í íþróttahúsinu á Álftanesi. Fimm lið mættu til keppni, þ. e. Álftanes, Breiðablik, Fjölnir, Fylkir og Snæfellsnes.

Úrslit urðu sem hér segir (nöfn markaskorara innan sviga):

Álftanes – Snæfellsnes: 3-0 (Alex 1, Atli 1, Gylfi Karl 1).
Álftanes – Fylkir: 3-2 (Atli 3).
Álftanes – Breiðablik: 2-3 (Alex 1, Atli 1). 
Álftanes – Fjölnir: 3-8 (Alex 1, Atli 1, Gylfi Karl 1). 

Úrslit þessi tryggðu liði Álftaness 3.-4. sæti sem verður að teljast vel viðunandi.

Heilt yfir erum við þjálfarar ánægðir með frammistöðuna. Drengir léku vel og agað en um afar sterkt mót var að ræða, líklega hið sterkasta sem við þjálfarar höfum tekið þátt í hjá 4. aldursflokki. Afar mikið jafnræði var með liðum og má nefna að síðasti leikur Álftaness var úrslitaleikur um hvort Álftanes eða Fjölnir ynni mótið. Að þessu sinni voru Fjölnisdrengir sterkari en þó var um hörkuleik að ræða sem var lengstum í járnum.

Okkar drengir voru engir eftirbátar hinna bestu en það sem skildi að var að einkum í liðum Fjölnis og Breiðabliks voru einfaldlega fleiri drengir sem höfðu betri tök á grunnatriðum knattspyrnunnar, s. s. móttöku, sendingum og að halda knetti. Það er alls ekki óeðlilegt þar sem iðkendafjöldi hjá þeim félögum er margfalt meiri en hjá Álftanesi.

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.