Álftanes - Breiðablik, stutt umfjöllun um leik í Faxaflóamóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara örfáum orðum leikinn í gær við Breiðablik sem var okkar síðasti leikur í Faxaflóamóti.

Um hörkuleik var að ræða sem háður var erfiðar aðstæður vegna veðurs, þar sem sól var aðra mínútuna og snjókoma og haglél hina næstu. Kom þetta niður á gæðum leiks.

Við hófum leikinn betur og leiddum framan af. Breiðablik var þó aldrei langt undan og tveir hávaxnir og spyrnufastir drengir gerðu okkur erfitt fyrir. Stóð 3-2 í leikhléi, okkur í vil. Þegar á leikinn leið náðu Blikar að sigla fram úr og höfðu sigur úr býtum, 7-10. Mörk okkar gerðu Ívar 3, Gunnar 2, Emilía 1 og Vera 1 (er vonandi með þetta rétt). Að mati okkar þjálfara var ekki um sanngjarna niðurstöðu að ræða og svo sannarlega vorum við ekki síðra liðið. Aflmunir réðu úrslitum, að okkar mati.

Heilt yfir er ég (við) ánægður frammistöðuna og það voru fínir spilakaflar í þessu. Mér fannst uppspil gott og við sköpuðum fullt af marktækifærum sem sum hver hefðu mátt nýtast betur. Að þessu sinni opnuðust glufur inni á miðsvæðinu í varnarleik okkar og við áttum í vandræðum með stoppa í þau göt. Af þeim sökum fengum við á okkur skyndisóknir og fullt af skotum á mark. Komu flest mörk Blika með langskotum sem erfitt var að ráða við þar sem þéttleiki var ekki nægjanlegur. Því fór sem fór.

Birgir Jónasson þjálfari.

Álftanes - Þróttur Vogum, stutt umfjöllun um æfingaleik

Sæl, öllsömul.

Ætla að fjalla örstutt um leikinn fyrr í dag við Þrótt Vogum.

Um hörkuleik var að ræða þar sem við vorum svolítið lengi í gang og fengum snemma leiks á okkur ódýr mörk. Náðum að vinna okkar smám saman inn í leikinn og vorum, að mínu mati, mun betra liðið á vellinum lungann af leiktímanum. Náðum þó ekki að nýta okkur það til fullnustu og af þeim sökum var leikurinn í járnum allan tímann, þar sem við vorum að elta.

Mörk okkar voru mörg hver góð, sum reyndar alveg frábær, og það var gaman að fylgjast með ykkur í dag, þrátt fyrir að við næðum ekki fram því besta. Uppspilið var gott og við náðum að skapa okkur urmul marktækifæra. Hins vega nýttust góð færi ekki vel á meðan síðri færi nýttust vel og úr urðu mörk. Bæði lið gerðu fimm mörk en mörk okkar gerðu: Ívar 1, Kristján 1, Kristófer 1, Mist 1 og Vaka 1 (er vonandi með þetta rétt).    

Loks endaði þetta með skemmtilegri vítaspyrnukeppni sem er svolítið nýtt fyrir ykkur. Það er hörkupressa að taka vítaspyrnu og ekki auðvelt verk. Gildir það bæði um unga sem „aldna“. Góð reynsla fyrir ykkur hins vegar.

Heilt yfir er ég nokkuð sáttur við frammistöðuna, þrátt fyrir að við höfum ekki byrjað leikinn vel og varnarleikur okkar hafi verið slakur framan af. Það batnaði þegar leið á leikinn og iðkendur náðu að halda yfirvegun, að mestu leyti, og bæta sig þegar á leið.

Birgir Jónasson þjálfari.

Selfoss/Hamar/Ægir - Álftanes, stutt umfjöllun um leik í Faxaflóamóti

Sæl, öllsömul.

Stutt endurgjöf um leikinn í gær í Hveragerði.

Það er öðruvísi að spila knattspyrnu innandyra en utan og það tók okkur smá tíma að ná áttum (knötturinn skoppar öðruvísi, engin vindur, hitastig hærra, öðruvísi öndun o.s.frv.). Þá var augljós þreyta í flestum okkar eftir erfiðan leik gegn Grindavík á fimmtudag.

Náðum samt góðum spilaköflum þrátt fyrir marga tæknifeila. Mótherjinn var mun lakari en síðast (Grindavík) og mér fannst þetta aldrei vera spurning, allt frá fyrstu mínútu. Mér fannst við leika ágætlega en áttum ekki okkar besta leik. Hefði viljað sjá aðeins meira flæði í leik okkar (færri snertingar), betri staðsetningar í uppspili og kannski aðeins meiri ákefð. Mögulega hafði þreyta þarna einhvern áhrif.   

Heilt yfir er ég ánægður með leikinn. Náðum upp góðum köflum, nýttum breidd vallarins nokkuð vel og mörgum sóknum lauk með markskoti. Settum mörg góð mörk og dreifðist markaskorun vel. Mörk okkar urðu tíu talsins, gegn fjórum. Markaskorarar voru (vona að þetta sé rétt): Ívar 4, Valur 2, Gunnar 1, Kristján 1, Kristófer 1, Viktor 1.

Samkvæmt mínum kokkabókum var þetta næstsíðasti leikur okkar í Faxaflóamóti. Næsti leikur er ráðgerður sunnudaginn 29. april nk. þegar att verður kappi við eitt af liðum Breiðabliks.  

Birgir Jónasson þjálfari.

Álftanes - Grindavík, stutt umfjöllun um leik í Faxaflóamóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fjalla í örfáum orðum um leikinn við Grindavík í dag.

Um hörkuleik var að ræða þar sem við (fjórar stúlkur úr 4. flokki léku með okkur og stóðu sig frábærlega) lékum líklega okkar besta leik í mótinu, fram til þessa. Á brattann var að sækja, fyrirfram, og vorum við búin undir það. Vorum við mjög skipulögð og öguð og náðum tveggja marka forskoti í fyrri hálfleik með tveimur mörkum frá Kristjáni. Grindavík sótti í sig veðrið, náði að skora og stóð 2-3 í leikhléi. Mörkin komu úr langskotum og eftir einstaklingsframtak og erfitt við þau að eiga, þrátt fyrir stórleik Sveins Hjartar í markinu.

Síðari hálfleikur var ekki ósvipaður hinum fyrri, bæði lið náðu að setja góð mörk og skipulag okkar hélt, eins og framast var unnt gegn sterkum mótherja. Erfitt var þó að ráða við langskot Grindavíkur. Hjá okkur skoruðu Emilíana og Gunnar tvö góð mörk. Urðu lyktir leiks 4-8, Grindavík í vil. Eru það góð úrslit.

Heilt yfir er ég afar ánægður með frammistöðuna en við vorum að leika mjög vel, skipulag var til fyrirmyndar og varnarleikur virkilega góður. Skyndisóknir okkar voru hættulegar og létum við fastan leik Grindavíkur ekki slá okkur út af laginu og var afar ánægjulegt var að sjá hvað við héldum mikilli yfirvegun, inni á vellinum. Mikill líkamlegur munur var á milli liða en Grindavík er með marga iðkendur á eldra ári. Kom það bersýnilega í ljós í leik sem þessum en að mínu mati voru það fyrst og fremst líkamlegir burðir sem skópu þennan sigur Grindavíkur. En sem áður segir er ég afar ánægður með frammistöðuna og við lékum sem lið.

Stutt í næsta leik og nú er bara að jafna sig fyrir hann.

Birgir Jónasson þjálfari.