Síðustu leikir, stutt endurgjöf

Sæl, öllsömul.

Vikan hefur verið annasöm hjá okkur, þrír leikir í Íslandsmóti (þrír leikir á fjórum dögum), og við komið víða við.

Þetta hefur gengið upp og ofan hjá okkur og við höfum verið þunnskipaðir. Þá er erfitt að sýna sína bestu hliðar þegar svo skammt er á milli leikja.

Heilt yfir er ég þó nokkuð ánægður með frammistöðuna. Drengir hafa lagt sig fram, gert sitt besta og staðið keikir. Það er ekki unnt að biðja um meira. Góðir spilakaflar hafa verið í leikjum okkar og gott flæði en í tveimur þessarar leikja hefur einfaldlega verið við ofurefli að etja. Einkum hefur það ofurefli verið líkamlegt en ekki knattspyrnulegt. Verðum að hafa slíkt í huga.  

Nú er einn leikur eftir í Íslandsmóti, heimaleikur gegn Þrótti Vogum. Leiktími hefur ekki verið fastsettur en ráðgert er að hann fari fram í næstu viku. Skulum mæta vel stemmdir í hann og gera okkar besta.

Áfram gakk, drengir!

Birgir Jónasson þjálfari.

Njarðvík - Álftanes, umfjöllun um leik í Íslandsmóti

Sæl, öllsömul.

Ætla fara nokkrum orðum um leikinn við Njarðvík sem fram fór í gær.

Mér fannst við mæta miklu betur stemmdir til leiks en síðast og vildum augljóslega gera betur. Lékum nokkuð vel á erfiðum velli og það var hugsun á bak við það sem við vorum að gera. Nokkuð gott flæði var á knettinum og náðum við að skapa okkur mikið af hálffærum og færum.

Því miður náðum við ekki nýta yfirburði okkar og var refsað fyrir að leika sóknarknattspyrnu. Fengum við mörk í bakið eftir að hafa sótt. Lyktir leiks urðu 6-3, Njarðvík í vil. Mörk okkar gerðu Ívar, Vaka og Vera. Allt saman góð mörk sem komu eftir liðssamvinnu á meðan mörk Njarðvíkur komu fremur eftir einstaklingsframtak.

Heilt yfir er ég ánægður með frammistöðuna. Við lékum vel, létum knöttinn ganga, sköpuðum okkur færi en nýttum því miður færin ekki nægjanlega vel. Þá náðum við ekki að verjast skyndisóknum Njarðvíkur nægilega vel og því fór sem fór. Er ánægður með hugarfarið og það var betra en í síðasta kappleik. Mér fannst við höndla mótlæti nokkuð vel og vorum ekki að svekkja okkur á aðstæðum sem við stjórnum ekki, t.d. styrkleika mótherja, yfirborði leikvallar og dómara.

Höldum áfram á sömu braut og náum góðri æfingaviku. Næsti kappleikur svo um næstu helgi. Það verður erfiður leikur en þá verður att kappi við Sindra og leikið á heimavelli. 

Birgir Jónasson þjálfari.

Álftanes - Grótta, stutt umfjöllun um leik í Íslandsmóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara örfáum orðum um leik okkar gegn Gróttu á miðvikudag.

Því miður mættum við engan veginn stemmdir til leiks og sást það bersýnilega á fyrstu mínútum leiksins. Eftir ca tveggja mínútna leik var staðan orðin 0-3, Gróttu í vil. Á þeim tíma gengu drengir um völlinn og nánast hreyfðu sig ekki. Hef ég sjaldan séð annað eins á mínum þjálfaraferli.  

Við vöknuðum svo smám saman til lífsins, einkum eftir stúlkur fóru að koma inn á völlinn en allir skiptimenn liðsins voru stúlkur í 4. flokki. Að mínu mati náðu þær að rífa upp baráttuandann og auka gæðin í leik okkar, bæði með hugarfari og frammistöðu.  

Eftir það jafnaðist leikurinn en Grótta hins vegar enn ívið sterkari. Um tíma mátti þó vart á milli sjá. Vissulega hafði verið spennandi að horfa á okkar drengi leggja sig fram í upphafi og ganga til verks af fagmennsku. Náðum að setja nokkur góð mörk, líklega ein fimm talsins, en fengum á okkur nokkuð fleiri mörk, og munaði þar talsvert um þá forgjöf sem Grótta fékk í upphafi leiks.  

Heilt yfir er ég ekki ánægður með frammistöðuna og þetta er eitthvað sem ég vil ekki standa fyrir, þ.e. að drengir sýni af sér ófagmennsku og metnaðarleysi við knattspyrnuiðkun með því að leggja sig ekki fram. Slíkt er einfaldlega ekki í boði! Ætla vona að eitthvað í líkingu við þetta muni ekki sjást á ný. Vona að drengir láti sér þetta að kenningu verða og dragi af þessu einhvern lærdóm.  

Birgir Jónasson þjálfari.

Þróttur Vogum - Álftanes, stutt umfjöllun um leik í Íslandsmóti

Sæl, öllsömul.

Ætla að fara örfáum orðum um leikinn við Þrótt Vogum í gær.

Náðum að sýna allar okkar bestu hliðar og í raun var um að ræða leik kattarins að músinni. Mun minni mótspyrna en búast mátti við og verið hefur í fyrri leikjum við Þrótt, en við höfum leikið við þá tvisvar í vetur. Nú síðast fyrir rúmum mánuði þar sem Þróttur fór með sigur af hólmi eftir spennandi vítaspyrnukeppni, eins og einhverjir kannski muna. 

Frábærir spilakaflar hjá okkur, mikið af marktækifærum og uppskárum góð mörk í öllum regnbogans litum. Uppspilið var gott, sóknarleikurinn almennt leiftrandi og snarpur og mér fannst varnarleikurinn einnig vera góður. Vorum samt að fá á okkur marktækifæri, eðlilega þar sem sótt var á mörgum mönnum. Sveinn Hjörtur með virkilega góðan leik í markinu og stóð svo sannarlega fyrir sínu.

Mörk okkar urðu allnokkur en þau gerðu Valur 5, Ívar 2, Gunnar 2, Emilía 1 og Mist 1 (er vonandi ekki að gleyma neinum).

Heilt yfir er ég afar ánægður með frammistöðuna. Að sjálfsögðu hefði verið skemmtilegra að fá aðeins jafnari leik en svona er þetta stundum.

Birgir Jónasson þjálfari.