Selfoss/Hamar/Ægir - Álftanes: 6-7

Sæl, öllsömul!

Ég ætla að fara örfáum orðum um leik Álftaness og Selfoss/Hamars/Ægis sem fram fór í gær, laugardaginn 9. febrúar, á Selfossi í rigningu og roki. Umræddur leikur var í Faxaflóamóti.

Einungis 12 iðkendur skiluðu sér til leiks af þeim 17 sem boðaðir voru og er það talsvert áhyggjuefni en það hefur ítrekað gerst í vetur að drengir hafa ekki skilað sér í verkefni og skemmst er að minnast fyrirhugaðs leiks A-liðs við Aftureldingu fyrir skömmu, sem ekki varð þó af, og leiks B-liðs við Hauka í Risanum fyrir áramót þar sem aðeins fjórir af þeim 13 iðkendum, sem boðaðir voru, mættu. Of oft hefur það gerst að engar viðhlítandi skýringar hafa fengist á því hvers vegna drengir mæta ekki og alltof, alltof seint erum við þjálfarar látnir vita, sé það yfirhöfuð gert. Þetta gerir allar skipulagningu afar erfiða. Vera kann að hluti skýringar sé vegna þess að tölvupóstur er ekki sérstaklega sendur til foreldra/forráðamanna. Rétt er þó að minna á að ítrekað hefur komið fram á fundum okkar að það sé með ráðum gert að fækka tölvubréfum og smám saman að beina öllu upplýsingastreymi í gegnum heimasíðu félagsins, gagngert til þess að iðkendur sýni ábyrgð og séu sjálfir meðvitaðir hvað sé framundan á hverjum tíma. Nóg um það!

Um hörkuleik var að ræða þar sem Álftanesdrengir léku á als oddi framan af, einkum í fyrri hálfleik gegn sterkum vindi. Ekki var liðin hálf mínúta af leiknum þegar fyrsta mark Álftaness kom en þar var Guðmundur Bjartur á ferð eftir undirbúning frá Alex. Eftir tíu mínútna leik var staðan orðin 0-3, Álftanesi í vil. Óðu okkur drengir hreinlega í marktækifærum þegar hér var komið sögu og náðu að setja tvö mörk til viðbótar. Selfoss/Hamar/Ægir náði að svara fyrir sig með einu marki og stóð 1-5 í leikhléi, Álftanesi í vil.

Síðari hálfleikur byrjaði afleitlega en tvö mörk frá Selfossi/Hamri/Ægi komu á fyrstu tveimur mínútum hálfleiksins. Eftir það jafnaðist leikurinn og smám saman náðu okkar drengir yfirhöndinni á ný og hreinlega óðu í marktækifærum. Treglega gekk að nýta færin og um tíma stóðu leikar 4-5, Álftanesi í vil, sem var mjög gegn gangi leiks. Tvö mörk frá báðum liðum komu þó áður en yfir lauk og urðu lyktir því 6-7, Álftanesi í vil. Að mati okkar þjálfara geta Selfoss/Hamar/Ægir vel við unað þeim úrslitum enda var sigurinn mun öruggari en þau úrslit gefa til kynna. Mörk Álftaness gerðu: Gylfi Karl 3, Alex Þór 1, Atli Dagur 1, Guðmundur Bjartur 1, Guðmundur Ingi 1.

Heilt yfir erum við þjálfarar afar ánægðir með frammistöðuna sem var á köflum framúrskarandi og líklega það besta sem sést hefur í vetur. Náðu drengir frábærum samleik, héldu knetti innan liðs, sköpuðu sér urmul marktækifæra og léku sem lið.

Birgir og Guðbjörn þjálfarar.